Vörukarfan lækkað hjá 7 verslunum

Vörukarfa ASÍ hefur lækkað hjá sjö verslunum frá því í september 2015 þar til nú í febrúar. Hjá sex verslunum hefur vörukarfan hækkað í verði, mest um 7,3% hjá 10/11.

Mesta lækkunin á þessu tímabili er 3,8% hjá Hagkaupum og um 2% hjá Nettó, Iceland, Samkaupum-Úrval, Kaupfélagi Skagfirðinga og Kjarval. Á sama tímabili hefur matur og drykkur í vísitölu neysluverðs lækkað um 0,7%.

Á þessu tímabili má sjá verðbreytingar í öllum vöruflokkum bæði hækkanir og lækkanir. Grænmeti og ávextir hafa lækkað töluvert í verði hjá flestum verslunum og drykkjarvörur hækkað í öllum verslunum nema Kaskó, að því er segir á vef ASÍ.

Töluverðar breytingar í öllum vöruflokkum

Töluverðar verðbreytingar eru í öllum vöruflokkum hjá öllum verslunum. Sem dæmi um hækkanir hefur vöruflokkurinn drykkjarvörur hækkað hjá tólf verslunum af þrettán, mest um 7,3% hjá 10/11, 5,2% hjá Samkaupum-Úrval, 4,8% hjá Nettó, 401% hjá Víði og um 3,7% hjá Hagkaupum.

Mjólkurvörur, ostar og egg hafa hækkað í verði hjá sjö verslunum af þrettán, mest um 11,5% hjá 10/11 og svo um 1,9% hjá Hagkaupum en lækkaði í verði um 3,6% hjá Kaskó og 1,7% hjá Iceland.

Vöruflokkurinn brauð og kornvörur hefur lækkað í verði hjá ellefu verslunum af þrettán mest um 3,8% hjá Krónunni, 3,2% hjá Hagkaupum, 2,9% hjá Bónus og um 2,8% hjá Víði. Mikil verðhækkun var hjá 10/11 eða 9,1%. Verslunin 10/11 er eina búðin sem hefur hækkað verðið í flestum vöruflokkum og eru hækkanirnar miklar. Ýmsar matvörur(sem innihalda m.a. sósur, krydd, fisk og feitmeti) hafa hækkað um 11,6%, sætindi um 10% og mjólkurvörur um 11,5%. Eini vöruflokkurinn sem lækkar í verði eru kjötvörur eða um 0,7%.

Nánar hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert