Sakar Helga um gleymsku og rangfærslu

Birgitta Jónsdóttir og Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmenn Pírata.
Birgitta Jónsdóttir og Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmenn Pírata.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, sakar samflokksmann sinn, Helga Hrafn Gunnarsson, um gleymsku og stórkostlega mikla rangfærslu í viðtali sem birtist í Kjarnanum í dag. Gagnrýnin beinist að ummælum Helga um tillögu Pírata um styttra þing á næsta kjörtímabili.

Helgi segir í viðtali við Kjarnann, að sá misskilningur sé í gangi að Píratar vilji styttra þing á næsta kjörtímabili og að það sé Birgitta Jónsdóttir sem sé á þeirri skoðun. Hann undirstrikar að tillagan hafi verið felld á aðalfundi og að hann sé ekki sammála Birgittu í þessu máli.

„Helgi Hrafn virðist algerlega gleyma því að þetta er bara ekki tillagan mín heldur tillaga sem hlaut langmestan stuðning frá félögum okkar í kosningakerfinu: Betri aðafundur um þau málefni sem Píratar vildu leggja áherslu á á aðalfundinum.

Síðan er það stórkostlega mikil rangfærsla að segja að tillagan hafi verið felld, henni var breytt smávægilega þar sem ákveðið var að hafa það opnara en ella að hafa þetta lengur en 9 mánuði, þetta er þó samkvæmt tillögunni ekki ályktun um lengra tímabil en eitt þing. Eitt þing er eitt ár og eitt kjörtímabil eru fjögur ár,“ skrifar Birgitta á Facebooksíðu sína í kvöld.

Hún segir ennfremur, að hún hafi rétt út sáttarhönd en beðið Helga um að fara ekki í viðtöl um ágreiningsmál. Það hafi hann því miður ekki virt. Birgitta segist því verða að geta útskýrt rangfærslur.

Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi Pírata, tjáir sig um málið á Facebooksíðu Birgittu, en hann segir að það hljóti að vera í lagi að ræða ágreiningsmál í fjölmiðlum ef þau snúast um málefni og misjafnar skoðanir.

„Hér virðist hins vegar kominn upp ágreiningur um hvernig eigi að túlka samþykkta stefnu og það er alls ekki gott. Vonandi er hægt að leysa úr því með því að setja ágreininginn í réttan farveg innan flokksins,“ skrifar Halldór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert