Ganga 3 km leið að flugvélarflaki

Við Sólheimasand. Eins og sjá má er landið orðið illa …
Við Sólheimasand. Eins og sjá má er landið orðið illa farið. Mynd/Benedikt Bragason

Fjöldi ferðamanna hefur þurft að ganga um þriggja kílómetra leið að bandaríska flugvélarflakinu á Sólheimasandi í dag eftir að landeigendur lokuðu leiðinni fyrir bílaumferð.

„Það hefur verið haugur af bílum þarna fyrir utan í dag. Fólk labbar niður eftir,“ segir Benedikt Bragason, einn af landeigendum.

Slá var sett yfir veginn sem liggur að flakinu í morgun og skilti var sett upp í gær þar sem bílaumferð er bönnuð.

„Það voru bílar á svæðinu fyrir neðan í gær og þá vorum við ekkert að smala út en við fórum eldsnemma í morgun og settum slá við hliðið.“

Flugvélarflak vélarinnar Douglas Dakota.
Flugvélarflak vélarinnar Douglas Dakota. Mynd/Malcolm Holmes

Hann segir ferðamennina ekki hafa kvartað yfir tilhöguninni en landeigendur bönnuðu umferð um svæðið í gær vegna slæmrar umgengni.

 „Við leitum allra leiða til að opna þetta aftur. Við finnum einhverja lausn á þessu. Best væri að opna aftur í dag en ég á ekki von á því,“ segir Benedikt.

mbl.is