Skattar greiddir frá upphafi

Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundur Davíðs Gunnlaugsson forsætisráðherra, á félagið …
Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundur Davíðs Gunnlaugsson forsætisráðherra, á félagið Wintris sem skráð er á Bresku jómfrúreyjum. mbl.is/Steinþór

Skattar hafa frá upphafi verið greiddir af erlenda félaginu Wintris Inc., sem er í eigu Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, eiginkonu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður forsætisráðherra.  Eignir Wintris, sem er skráð á Bresku-Jómfrúreyjum og er í fjárstýringu hjá útibúi Credit Suisse á Bretlandi, nema rúmum milljarði, auk þess sem félagið á kröfur á alla föllnu bankanna.

Krafa Wintris í þrotabú Kaupþings nemur 1,5 milljón evra að nafnvirði, krafa félagsins í þrotabú Glitni nemur einni milljón franka og krafan á þrotabú Landsbankans 174 milljónum króna.

„Við urðum vör við það fyrir helgi að það voru aðilar í fjölmiðlum sem voru að velta þessu fyrir sér og greinilega á þeim nótum að þarna væri verið að fela eitthvað,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður forsætisráðherra, sem Anna Sigurlaug hefur falið að veita fjölmiðlum upplýsingar um fjármál sin.  

Anna Sigurlaug hafi því ákveðið að útskýra stofn­un fé­lags­ins og skatta­mál sín í færslu á Facebook síðu sinni. „Augljóslega vakna spurningar það gera sér allir grein fyrir því, ekki síst hún,“ segir Jóhannes Þór.  En í færslu Önnu Sigurlaugar segi að fé­lagið hafi verið stofnað til að halda utan um afrakst­ur sölu á hlut hennar í fjöl­skyldu­fyr­ir­tæk­inu.

Landsbankinn í Lúxemborg stofnað félagið árið 2007 og fékk Anna Sigurlaug félagið 2008 við söluna á sínum hlut í fjölskyldufyrirtækinu. Bank­inn hafi talið „ein­fald­ast að stofna er­lent fé­lag um eign­irn­ar svo þær væru vistaðar í alþjóðlegu um­hverfi og að auðvelt yrði að nálg­ast þær hvar svo sem bú­seta okk­ar yrði,“ segir í færslunni.  

Grundvallaratriðið er þó að sögn Jóhannesar Þórs að  alltaf  hafa verið greiddir allir skattar af félaginu líkt og yfirlýsing frá KPM, sem hafi frá upphafi séð um endurskoðun félagsins, færi sönnur á.  

Lítið greitt upp í almennar kröfur

Kröfur Önnu Sigurlaugar í bankana séu ennfremur almennar kröfur. „Þetta eru bara upphafleg skuldabréfi sem hún á vegna peninga sem töpuðust við hrunið. Þetta félag hefur aldrei keypt eða selt kröfur á bankana.“ Sé ennfremur skoðuð sú stefna sem Sigmundur Davíð hafi keyrt gagnvart  kröfuhöfum bankanna, þá er lítið greitt upp í almennar kröfur og það eigi það við um kröfu hennar eins og annarra.

Jóhannes Þór segir heldur ekki verið að brjóta neinar reglur varðandi hagsmunaskráningu forsætisráðherra í þinginu.  „Eins og þingið setur upp hagsmunaskráningareglurnar þá kemur þar fram að menn þurfa að skrá eignarhluti sem eru yfir ákveðnum mörkum í félögum í atvinnurekstri og þetta er ekki félag í atvinnurekstri og  fellur ekki undir þær. Það er ekki verið að brjóta neinar reglur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert