Fáum aldrei betri aðstæður

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri. mbl.is/Golli

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir að núna sé besti tíminn til að afnema gjaldeyrishöftin. „Við erum með góðan viðskiptaafgang, með gjaldeyrisforða og vel fjármagnað bankakerfi. Við fáum, held ég, aldrei betri aðstæður,“ sagði Már á fundi peningastefnunefndar Seðlabankans með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.

„Ef við bíðum of lengi geta aðstæður farið að súrna. Við sjáum að höftin eru farin að valda meiri og meiri skaða. Það er óheppileg staða að innflæði sé frjálst en útflæði heft,“ bætti hann við.

Á fundinum var rædd skýrsla peningastefnunefndar til Alþingis 2015 en Már er formaður nefndarinnar. Auk hans voru viðstödd fundinn Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, og Rannveig Sigurðardóttir, ritari peningastefnunefndar.

Spurði út í eignabóluna

Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, sagði að svo virtist sem verðbólgu hafi ítrekað verið ofspáð af Seðlabankanum. Leitaði hann skýringa á því hjá peningastefnuefndinni. Einnig sagði hann Seðlabankann ekkert hafa gert til að bregðast við eignabólu í landinu. Það bitnaði helst á skuldugum heimilum í landinu en gagnaðist þeim sem eigi laust sparifé. „Af hverju þurfa hinir skuldugu að bera þann bagga að halda ástandinu stöðugu?,“ spurði hann. „Peningastefnunefnd þarf að hlusta, ekki bara hunsa áhyggjuraddir þingmanna. Það er þreytandi að lítið hafi verið brugðist við."

Hætta á ofhitnun hagkerfisins

Már svaraði því þannig að verðbólguspáin væri stuðningstæki og að vextir væru ekki ákveðnir blint út frá verðbólguspá. „Það er ekki hægt að draga þær ályktanir að þó að bankinn hafi ofspáð verðbólgunni séu meginvextir bankans of háir. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var hér um daginn og hann telur að meginhættan sé ofhitnun hagkerfisins. Hann mælir með því að bankinn haldi þessu aðhaldsstigi og muni væntanlega þurfa að herða það meira þegar tíminn líður,“ sagði Már.

„Það er rétt að það er eignabóla en hærri vextir Seðlabankans vinna á henni.“

Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar.
Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert