Heilluð af hugmyndum Barnahúss

Anne Longfield er umboðsmaður barna í Bretlandi.
Anne Longfield er umboðsmaður barna í Bretlandi.

Umboðsmaður barna á Bretlandi, Anne Longfield, er stödd hér á landi til þess að kynna sér starfsemi Barnahúss en hún vonast til þess að opnuð verði Barnahús í Bretlandi á næstu árum að íslenskri fyrirmynd. Barnahús er orðið alþjóðlegt fyrirbæri undir íslenska nafninu og segir forstjóri Barnaverndarstofu það mikinn heiður.

Umboðsmaður barna í Bretlandi er sjálfstætt embætti fjármagnað af ríkinu. Longfield er hér á landi ásamt tíu manna nefnd á vegum bresku ríkisstjórnarinnar til þess að kynna sér starfsemi Barnahúss.  

„Eitt sem ég hef verið að skoða í mínu embætti er hvernig við getum boðið börnum sem hafa verið misnotuð kynferðislega betri stuðning,“ segir Longfield í samtali við mbl.is.

„Við vitum af því að í Bretlandi er ekki sagt frá stórum hluta misnotkunar gegn börnum. Börn segja ekki frá hvað er gert við þau  og ef það er gert tekur við langt ferli, fyrst rannsókn og svo dómsmeðferð. Börn þurfa oft að bíða lengi eftir að fá andlega hjálp og við höfum verið að skoða leiðir til að bæta þetta og að börn fái betri hjálp og fái hana fyrr til að jafna sig.“

Longfield segist hafa heyrt af hugmyndinni bakvið Barnahús og starfseminni sem fer þar fram og var mælt með því við embættið að skoðað yrði hvernig Barnahús myndi virka í Bretlandi. „Við vildum koma hingað og sjá sjálf hvernig Barnahúsið virkar, tala við fólkið sem vinnur þar, ásamt fulltrúum stjórnvalda og dómsyfirvalda til þess að heyra þeirra álit. Svo þurfum við að skoða hvernig þær upplýsingar gætu nýst heima í Bretlandi.“

Staður sem er búinn til fyrir börn

Longfield segist þykja mikið til koma af starfsemi Barnahús, þá sérstaklega vegna þess að þar eru börnin þungamiðjan og öll þjónusta snýr að þeim.

„Þetta er staður sem er búinn til fyrir börn og augljóslega eru börnin þungamiðjan. Við höfum aðeins heyrt góða hluti um hvernig starfsemin hefur haft mikilvæg áhrif og breytt því hvernig tekið er á móti börnum sem verða fyrir misnotkun.“

Með Longfield í för eru fulltrúar frá öllum ráðuneytum Bretlands og segir Longfield  mikinn áhuga fyrir því að prófa hugmyndir Barnahúss í Bretlandi. Vonast hún til þess að fyrsta Barnahúsið verði opnað þar eftir tvö til þrjú ár.  

Veitir börnum sjálfstraust til að segja frá

Hún segir umræðuna um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum hafa aukist síðustu ár í Bretlandi, sérstaklega í ljósi fregna af glæpagengjum sem herja á börn. Þá hefur þó líka orðið aukning í umræðunni um kynferðisbrot sem börn verða fyrir af fjölskyldumeðlimum. Að sögn Longfield er aðeins eitt af hverjum átta málum þar sem fjölskyldumeðlimur er gerandinn tilkynnt til yfirvalda.

„Eitt sem vekur áhuga okkar á Barnahúsi er hvernig starfsemin veitir börnum sjálfstraust til þess að segja einhverjum frá því sem þau hafa upplifað,“ segir hún og bætir við að með aukinni umfjöllun um kynferðislega misnotkun gegn börnum skapist frekari þörf til lausna. „Þessi heimsókn okkar til Íslands kemur á mjög góðum tíma.“

Í Barnahúsi er barnið alltaf í þungamiðjunni
Í Barnahúsi er barnið alltaf í þungamiðjunni mbl.is/Eggert Jóhannesson

Líða tvö ár frá tilkynningu til meðferðar

Hún segir að eins og kerfið er núna er ferlið frá því að barn segir frá broti og þar til það fær dómsmeðferð um tvö ár. Þá þurfa þau oft að bíða jafnlengi eftir að fá hjálp frá fagaðilum við að vinna úr áfallinu. „Hér heyrum við að það taki ekki nema 1-2 vikur fyrir börnin að fá hjálp og að það sé keðja sálfræðinga og fagaðila sem ræða við börnin. Það þýðir að yfirvöld fá miklu betri sönnunargögn og skýrari mynd af því sem gerðist. Þetta eru án efa atriði sem við viljum að verði tekin upp í okkar kerfi,“ segir Longfield.

„Barnahús er augljóslega eitthvað sem Íslendingar eru mjög stoltir af og við erum þakklát að fá tækifæri til þess að læra meira um það.“

Orðið alþjóðlegt fyrirbæri

Barnahús er á vegum Barnaverndarstofu sem fer með stjórn barnaverndarmála í umboði velferðarráðuneytisins. Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segir það ánægjuefni að Bretar líti til Íslands í þessum málum. „Það er auðvitað ofboðslegur heiður fyrir okkur að breska stórveldið, sem býr yfir allri þessari þekkingu og reynslu, leiti til okkar. Uppi eru kröfur um að taka allt kerfið þeirra í gegn og koma á fót umbótum til þess að bæta rannsókn og meðferð þessa mála en þó þannig að börnin séu í þungamiðjunni,“ segir Bragi í samtali við mbl.is.

Barnahús var sett á laggirnar árið 1998 og er nú á vissan hátt orðið alþjóðlegt fyrirbæri. Norðurlöndin hafa tekið upp Barnahúss-módelið, fyrst Svíar árið 2005 og Norðmenn tveimur árum seinna. Þá opnaði fyrsta Barnahúsið í Danmörku árið 2013. Í Svíþjóð eru Barnahús í 30 borgum og í tíu borgum í Noregi.

Barnahús var sett á laggirnar árið 1998
Barnahús var sett á laggirnar árið 1998 mbl.is/Eggert Jóhannesson

Opnar í Litháen og Kýpur

„Það sem er sérstakt við Barnahúsið er að barnið er þungamiðja starfseminnar og allar stofnanir sem hafa hlutverk að gegna við rannsókn hvers máls vinna saman undir einu þaki,“ segir Bragi. Fulltrúar Barnaverndar, lögreglu, dómskerfisins og heilbrigðiskerfisins koma allir í Barnahúsið og ræða þar við barnið.

„Þannig fer barnið bara í eitt viðtal þar sem framburður barnsins er fenginn. Áður þurfti að fara á milli fulltrúa og í mörg viðtöl sem höfðu skelfilegar afleiðingar, bæði fyrir barnið sjálft og framburð þess,“ segir Bragi. Nefnir hann slæm áhrif þess fyrir barnið að þurfa að upplifa áfallið endurtekið með því að þurfa ítrekað að segja frá og þá skemmir það málsmeðferðina þegar að framburður barnsins breytist milli viðtala. Þá var áður ekki endilega fólk að taka á móti börnunum sem höfðu fengið þjálfun í að ræða við börn.

„Barnahús er að verða ráðandi form á þessu sviði og er að breiðast út víða,“ segir Bragi en í júní opnar fyrsta Barnahúsið utan Norðurlandanna en það verður í Vilnius í Litháen. Þá mun Barnahús einnig opna í Kýpur í byrjun næsta árs. „Þetta er að verða alþjóðlegt fyrirbæri.“

mbl.is