Tölvupósturinn frá Trump

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

„Ég veit ekki hvers vegna hann er að senda þetta á mig en hann hefur víst sent þennan sama tölvupóst á fleiri alþingismenn. Síðan ávarpar hann mig sem vin,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is og hlær.

Vísar Guðlaugur þar til tölvupósts frá bandaríska forsetaframbjóðandanum Donald Trump sem sendur hefur verið á alþingismenn, þar á meðal Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Bjarkeyju Gunnarsdóttur, þingmann VG, og Vigdísi Hauksdóttur, þingmann Framsóknarflokksins, þar sem óskað er eftir fjárhagslegum stuðningi við forsetaframboð hans. Býðst Trump til þess að leggja fram framlag á móti. Guðlaugur segist aðspurður svo sannarlega ekki hafa í hyggju að verða við ósk Trumps.

Trump segir í tölvupóstinum að þetta sé í fyrsta sinn sem hann safni fjárframlögum með þessum hætti en hann hefur lengi stært sig af því að vera engum háður fjárhagslega í framboði sínu þar sem hann fjármagnaði það sjálfur. Hins vegar hefur komið á daginn að verðandi andstæðingur hans í forsetaslagnum, Hillary Clinton, á margfalt digrari kosningasjóði.

„Demókratar eru örvæntingarfullir, þeir reyna að nota allt sem þeir hafa gegn mér. Þeim mistekst það hins vegar í sífellu,“ segir Trump meðal annars í tölvupóstinum. „Þeir munu segja og gera hvað sem er til að fá Hillary Clinton kjörna en ég stend í vegi þess.“ Og síðan: „Við getum ekki hleypt henni aftur inn í Hvíta húsið.“

Tölvupóstinn má lesa í viðhengi á ensku.

mbl.is
Loka