Ólafur hyggst leita réttar síns

Ólafur M. Magnússon, framkvæmdastjóri Kú-mjólkurbús.
Ólafur M. Magnússon, framkvæmdastjóri Kú-mjólkurbús. mbl.is/Eyþór Árnason

Ólafur M. Magnússon, framkvæmdastjóri mjólkurbúsins Kú, segist sleginn yfir því hversu þrælskipulögð markaðsmisnotkun Mjólkursamsölunnar hefur verið. „Stjórn Mjólkursamsölunnar virðist hafa verið involveruð í ákvörðunartökunni um hvernig staðið var að þessum málum,“ segir hann í samtali við mbl.is

Samkeppniseftirlitið tilkynnti í dag þá ákvörðun sína að leggja á Mjólkursamsöluna 480 milljóna kr. sekt vegna markaðsmisnotkunar. MS seldi keppinautum sínum grundvallarhráefni til framleiðslu á mjólkurvörum á óeðlilega háu verði á sama tíma og MS sjálft og tengdir aðilar fengu hráefnið á mun lægra verði, og að auki undir kostnaðarverði.

Í samtali við mbl.is segist Ólafur ekki muna eftir því að sjá jafn afgerandi úrskurðarorð í ákvörðunum Samkeppniseftirlitsins. „Þeim er fyrirlagt hvernig þeir eiga að stunda viðskipti við sína keppinauta. Mjólkursamsalan skal heyra undir óháð eftirlit sem heyrir undir Samkeppniseftirlitið,“ segir Ólafur. „Það er óvanalegt og í því felst mikil vantraustsyfirlýsing gagnvart stjórnendum og stjórn MS.“

Hann segist einnig hissa á viðbrögðum Ara Edwald, forstjóra MS. „Éf ég fengi svona fréttir, stýrandi einu stærsta matvælafyrirtæki Íslands, væri ég áhyggjufullur. Jafnvel þó að menn trúi á sinn málstað þá er niðurstaðan mjög afgerandi,“ segir Ólafur og bætir við að stjórnendur MS séu búnir að stórskaða ímynd Mjólkursamsölunnar og íslensks landbúnaðar. „Þeir sem eru ábyrgir hafa kostað íslenska neytendur gríðarlega fjármuni, fyrir utan hvað þeir hafa valdið okkur miklum skaða,“ segir Ólafur.

„Það er alveg ljóst að við munum leita réttar okkar. Þeir hafa valdið okkur mjög miklum skaða, sérstaklega í tilfelli Mjólku,“ segir Ólafur. „Þeir hafa stórskaðað mína fjölskyldu og hluthafana í því verkefni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina