EM-fiðrildin væntanleg til Íslands

Gammayglan settist á Ronaldo í gærkvöldi.
Gammayglan settist á Ronaldo í gærkvöldi. AFP

Fiðrildið sem settist á knattspyrnukappann Cristiano Ronaldo þegar hann lá meiddur á vellinum í úrslitaleik EM í gærkvöldi var af tegundinni gammaygla.

Þetta segir Erling Ólafsson, skordýrafræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands á Facebook-síðunni Heimur smádýranna sem hann hefur umsjón með. Bætir hann við að fiðrildin hafi stolið senunni í leiknum. 

Frétt mbl.is: Eins og risastór mölflugugildra

Athygli vakti þegar fjöldi fiðrilda sveimaði um leikvanginn eins og sjá mátti glögglega í sjónvarpsútsendingunni frá leiknum. Á Facebook-síðunni Heimur smádýranna sem Erling hefur umsjón með segist hann hafa náð að greina tegundina þegar fiðrildið settist á hinn portúgalska Ronaldo.

Gammaygla á uppruna að rekja til Miðjarðarhafslanda og á hún það til að blossa upp í gríðarlegum fjölda á heimaslóðum og taka á rás norður eftir álfunni, segir Erling. „Þá ná fiðrildin gjarnan alla leið til okkar hér á skerinu. Nú sem sagt er yglan að blossa upp suður í álfu og má því vænta hennar hingað ef suðaustanvindar ná að leika um okkur á næstunni.“

Sést oftast á sunnan- og vestanverðu landinu

Á vef Náttúrufræðistofnunar kemur fram að yglan berist einnig til Færeyja og Grænlands. Hér á landi hefur hún fundist á láglendi um allt landið en mest á sunnan- og austanverðu landinu, frá Reykjanesskaga austur á Fljótsdalshérað. Einnig hefur hún fundist á skerjum inni í Breiðamerkurjökli.

Gammaygla er eitt algengasta flækingsfiðrildið á Íslandi. Hún berst hingað á hverju sumri en í mismiklum fjölda. Stundum kemur umtalsverður fjöldi hingað síðsumars.

Talið er afar ólíklegt að þær geti lifað af vetur á norðlægum slóðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert