Stjórn Pírata á Vesturlandi styður listann

„Þessi niðurstaða kom flestöllum á óvart. Síðan bárust vísbendingar um að maður í prófkjörinu hafi verið að smala yfir 30 manns í kosningnakerfið okkar. Hann segir það sjálfur. Það er bannað samkvæmt reglum flokksins. Ég get með engu móti stutt listann vegna þess,“ segir Halldóra Sigrún Ásgeirsdóttir Kapteinn Pírata á Vestfjörðum um niðurstöðu prófkjörs flokksins. RÚV greindi fyrst frá þessu í gær.

Halldóra ætlar ekki að taka sæti á listanum. „Ég hef ákveðið að draga framboð mitt tilbaka. Ég geri það til að sýna fram á að ég vil ekki endurkosningu á landsvísu til þess að koma mér ofar, heldur til að geta kosið minn eigin flokk í kosningunum í haust,“ segir Halldóra og bætir við að hún geti með engu móti stutt listann eins og hann er núna.

Sjá frétt mbl.is: Þórður efstur í Norðvesturkjördæmi

„Ef þetta verður listinn mun ég segja af mér embættinu hérna fyrir Vestan. Ég get ekki tekið þátt í þessu.“

Þórður Guðsteinn Pétursson endaði efstur í forvali prófkjörs Pírata. Hann sagði í samtali við RÚV í gær að hann teldi sig ekki hafa smalað í prófkjörið líkt og hann hefur verið sakaður um en hann hafi beðið nánustu fjölskyldu sína um að skrá sig í flokkinn og kjósa sig.

Halldóra segist hafa vísbendingar um annað. „Það að hann hafi aðeins talað við nánustu fjölskyldumeðlimi er bara bull. Það hafa komið fram tveir menn sem hafa fengið símtöl frá honum. Ofan á það var annar maðurinn búinn að fá símtöl frá öðru fólki sem þekkir Þórð ekki neitt og spurt hvers vegna hann væri að hringja í það fólk og biðja það um að kjósa sig í kosningakerfinu. Þannig að þetta eru ekki bara vinir og fjölskylda, þetta eru bara lygar hjá honum.

Þar sem Halldóra dró framboð sitt tilbaka á hún von á því að endurtalning fari fram áður en listinn verður settur inn í kosningakerfi Pírata á landsvísu til staðfestingar. Verði listinn ekki samþykktur þar, verður kosið aftur um þá frambjóðendur sem voru í kjöri en þá fá allir Píratar á landsvísu að taka þátt í kosningunni. Þar sem Halldóra dró framboð sitt tilbaka, yrði hún þá ekki í kjöri, fari endurkosning fram. 

Segja svörin einlæg

Stjórn Pírata á Vesturlandi sendi í dag frá sér tilkynningu þar sem segir að stjórnin hafi rætt við Þórð Guðstein Pétursson í kjölfar gagnrýninnar sem fram hefur komið. Segir stjórnin að svör hans hafi verið einlæg og mun stjórnin styðja listann „og við hlökkum til að taka þátt í kosningabaráttunni með öllum frambjóðendum,“ segir í tilkynningunni.

Þórður Guðsteinn segir fyrstu fjögur sætin á listanum öll tilbúin til að vinna með listanum eins og hann er.

„Í öllum staðarblöðum um allt land og út um allt á Facebook var prófkjör Pírata auglýst. Mikil umræða hefur verið í samfélaginu um prófkjör Pírata. Hver sem er var hvattur til að taka þátt í lýðræðinu. Prófkjör pírata var öðruvísi en prófkjör annarra flokka að því leyti að það má ekki gefa neinum neitt fyrir að kjósa sig. Það má ekki gefa neitt, hvorki veraldlegt né peninga. Þannig að hver sem er getur skráð sig í flokkinn eftir þeim hvatningarleiðum sem notaðar voru í samfélaginu,“ segir Þórður um gagnrýnina sem hann hefur hlotið í kjölfar prófkjörsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert