Vill endurvekja sykurskattinn

Sykurskatturinn staldraði stutt við hér á landi.
Sykurskatturinn staldraði stutt við hér á landi. mbl.is/Eggert
„Þetta er stórmerkileg skýrsla,“ segir Lára G. Sigurðardóttir, læknir og fræðslustjóri Krabbameinsfélagsins, spurð út í niðurstöður samantektar yfir 1.000 rannsókna á tengslum yfirþyngdar og krabbameins.
Í skýrslunni kemur fram að ofþyngd og offita eykur hættu á átta krabbameinum sem höfðu ekki áður verið tengd við aukakíló. Niðurstöðurnar voru birtar í tímaritinu New England Journal of Medicine í síðustu viku.

Rannsóknir á síðustu árum 

„Það er tiltölulega stutt síðan offita varð algeng í vestrænum löndum, þannig að það er eðlilegt að núna á síðustu árum séu að koma fram rannsóknir sem sýna þessi tengsl, því það getur tekur 20 til 30 ár frá því fyrsta krabbameinsfruman myndast og þangað til hægt er að greina meinið,“ segir Lára.
Árið 2002 gaf Alþjóðaheilbrigðisstofnunin það út að yfirþyngd gæti aukið líkurnar á krabbameini í ristli, vélinda, nýrum, brjóstum eftir tíðahvörf og legi. Nú hafa bæst í hópinn magi, lifur, gallblaðra, bris, eggjastokkar, skjaldkirtill, mergæxli og himnuæxli í heila.
Ofþyngd er vandamál hér á landi sem og víða annars …
Ofþyngd er vandamál hér á landi sem og víða annars staðar í Evrópu og Norður-Ameríku. AFP

Nálgast tóbaksreykingar

Samtals hafa því fundist tengsl á milli ofþyngdar og krabbameini í þrettán líffærum. Að sögn Láru er ofþyngd því að nálgast tóbaksreykingar hvað þetta varðar því þar hafa fundist tengsl við krabbamein í sautján líffærum.

Hún vill þó ekki setja ofþyngd í sama flokk og reykingar hvað varðar áhættu á krabbameini, enda séu afar mörg krabbameinsvaldandi efni í sígarettureyk. Samband offitu og krabbameins sé flóknara og áhrifin oftast vægari.

Fjölmörg krabbameinsvaldandi efni eru í sígarettureyk.
Fjölmörg krabbameinsvaldandi efni eru í sígarettureyk. AFP

Sjöfalt meiri hætta

Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar eru konur sem eru í hve mestri ofþyngd, þ.e. með líkamsþyngdarstuðul (BMI) yfir 40, í sjöfalt meiri hættu á að greinast með krabbamein í legi, auk þess sem fólk í ofþyngd er í næstum fimmfalt meiri hættu á að fá krabbamein í vélinda.

Tengslin eru álíka og með tóbaksreykingar og áfengi á þann hátt að krabbameinsáhættan er skammtaháð ef hægt er að orða það þannig. Því hærri sem líkamsþyngdarstuðullinn er, þeim mun meiri er áhættan,“ segir Lára.

Hún nefnir að í skýrslunni komi fram að konur sem hafi verið með mikla líkamsfitu og grennst hóflega hafi verið í minni hættu á að brjóstakrabbamein tæki sig upp aftur. 

Ljósmynd/Getty

Foreldrar þurfa að sýna ábyrgð

Áætlað er að um 640 milljónir fullorðinna og 110 milljónir barna í heiminum þjáist af offitu. Lára segir að foreldrar og aðrir sem umgangist börn þurfi að sýna aukna ábyrgð og passa upp á að börnin sín safni ekki á sig mikilli líkamsfitu. Mikil gosdrykkjaneysla, skyndibitafæði, sælgætisát og hreyfingarleysi eru helstu orsakir ofþyngdar og offitu.

Aðspurð segir hún mikla þörf á átaki hér á landi til að stemma stigu við offitu. Ekki bara vegna krabbameinsáhrifa heldur auki offita einnig líkur á ótímabærrum andlátum og fjölda annarra sjúkdóma, þar á á meðal sykursýki, kransæðasjúkdómum, heilablóðfalli og kæfisvefni. Allir þessir sjúkdómar skerði verulega lífsgæði og lífslengd. „Miðað við þessar fregnir er veruleg þörf á að grípa til aðgerða. 

Vill sykurskattinn aftur 

Hún mælir með því að sykurskattur verði aftur lagður á hér á landi en að framkvæmdin verði öðruvísi en síðast þegar hann var lagður á.  Skatturinn var settur á í mars 2013 en aflagður innan við tveimur árum síðar.

„Landlæknir hefur ítrekað að það hafi verið mistök að taka sykurskattinn algjörlega af. Sífellt fleiri rannsóknir sýna að hann virkar. Þetta er það sem vestrænar þjóðir eru farnar að gera og ná árangri með en það hefði mátt útfæra hann betur hér á landi. Það er ekki nóg að setja aura í heilbrigðiskerfið heldur verðum við einnig að vinna markvisst að því að fækka þeim sem þurfa á því að halda.

Frétt mbl.is: Sykurskatturinn hafði ekki áhrif

mbl.is/Hjörtur

Hollara snakk við búðarkassa

Lára fagnar því að verslanir Krónunnar séu farnar að hafa hollara snarl við búðarkassana, en tekur fram að allt samfélagið þurfi að vinna saman og stemma stigu við offitu, þar á meðal íþróttafélög, vinnustaðir og fjölmiðlar.
Fundur fólksins verður haldinn í Norræna húsinu næstkomandi föstudag og laugardag og þar munu almannaheillafélög, þar á meðal Krabbameinsfélagið, m.a. ræða við stjórnmálamenn um ýmis velferðarmál.
mbl.is

Bloggað um fréttina