Aðkoma Ingólfs aðeins tæknilegs eðlis

Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi, í Héraðsdómi Reykjavíkur …
Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi, í Héraðsdómi Reykjavíkur á sínum tíma. mbl.is/Golli

Ingólfur Helgason, þáverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi, kom aldrei að viðskiptum Kaupþings með eigin hlutabréf sem hann og sex aðrir voru sakfelldir fyrir í stóru markaðsmisnotkunarmáli í fyrra. Verjandi hans sagði Hæstarétti í morgun að aðkoma hans hafi aðeins verið tæknilegs eðlis.

Markaðsmisnotkunarmál Kaupþings er stærsta mál sinnar tegundar en í því voru níu stjórnendur og starfsmenn bankans ákærðir fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik í aðdraganda bankahrunsins. Ingólfur hlaut þyngsta dóminn í Héraðsdómi Reykjavíkur, fjögurra og hálfs árs fangelsi. Áfrýjun málsins var tekin fyrir í Hæstarétti í morgun.

Saksóknari hélt því fram að ákærðu hefðu haldið hnignandi hlutabréfaverði bankans uppi með því að láta bankann kaupa bréf í sjálfum sér í miklum mæli og selja þau svo aftur til félaga sem fengu lán með litlum sem engum veðum hjá Kaupþingi sjálfu.

Grímur Sigurðsson, verjandi Ingólfs, lagði áherslu á að Ingólfur hafi ekki haft vitneskju um fjármögnun kaupanna á bréfum bankans og því væri ekki hægt að sakfella hann fyrir það. Hann hefði ekki haft neina heimild til að samþykkja lánveitingarnar og sama mætti segja um starfsmenn sem komu að viðskiptunum..

Engin gögn í málinu sýni fram á að Ingólfur hafi komið að viðskiptunum eða fyrirskipað lánveitingar. Óumdeilt sé að Ingólfur hafi tilkynnt um viðskiptin til kauphallar en sú aðkoma hafi aðeins verið tæknilegs eðlis. Ekki sé skylt að tilkynna um fjármögnun viðskipta til kauphallarinnar og því sé það engin sönnun á því að Ingólfur hafi þekkt fjármögnunina að hann hafi tilkynnt um viðskiptin þangað.

mbl.is