„Dýrin líða vítiskvalir“

Á síðustu mánuðum er talið mögulegt að eitrað hafi verið …
Á síðustu mánuðum er talið mögulegt að eitrað hafi verið fyrir átta köttum í Fjarðabyggð, í Hveragerði og á Selfossi. Allir drápust þeir. mbl.is/Rax

Á síðustu mánuðum hafa að minnsta kosti átta kettir, fimm á Suðurlandi og þrír á Austurlandi, drepist að því er talið er vegna eitrunar. Í nokkrum málanna þykir sannað að köttunum hafi verið byrlað eitur, m.a. með því að gefa þeim mat sem sprautaður var með frostlegi.

Tvö dæmin eru nýleg. Annað kom upp á Selfossi í október og hitt um svipað leyti á Fljótsdalshéraði. Í síðustu viku kærði Matvælastofnun hina meintu eitrun á Selfossi til lögreglunnar. Grunur leikur á að eitrað hafi verið fyrir kettinum með því að blanda af ásetningi frostlegi saman við fæðu. Við krufningu komu í ljós breytingar í nýrum sem benda sterklega til frostlagareitrunar. Svipuð niðurstaða hefur fengist í flestum málanna. Til stendur að kæra nýjasta málið á Austurlandi einnig til lögreglunnar.

Frétt mbl.is: Mögulega eitrað fyrir ketti

Rannsókn á dauða kattarins á Selfossi er að sögn lögreglunnar erfið þar sem engar ábendingar um meintan geranda hafa borist sem komið gætu lögreglunni á sporið. Enginn er því enn sem komið er grunaður um verknaðinn.

Fjögur sambærileg mál hafa komið upp í Hveragerði síðasta árið. Í fyrra drápust að minnsta kosti þrír kettir eftir að hafa étið fiskflök með frostlegi. Annað sambærilegt mál kom svo upp í bæjarfélaginu í ágúst á þessu ári. Við rann­sókn lög­reglu á eitrununum í fyrra bár­ust nokkr­ar vís­bend­ing­ar en þær leiddu ekki til niður­stöðu. Málin eru því enn óleyst.

Frétt mbl.is: Dularfullur kattadauði í Hveragerði

Allir þessir kettir fengu skyndilega nýrnabilun, jafnvel ung, hraust dýr. Hún var það alvarleg að þrátt fyrir meðferð hjá dýralæknum tókst ekki að bjarga lífi þeirra. Ekki er hægt að fullyrða að um viljaverk sé að ræða í öllum þessum málum en ákveðin líkindi eru þó með þeim flestum. Ekki er útilokað að einhver dýranna hafi komist í frostlög eða annað eitur fyrir slysni. 

Gífurlegur sársauki

 „Þetta er í einu orði sagt andstyggilegur hugsunarháttur vegna þess að dýrin líða vítiskvalir,“ segir Gunnar Þorkelsson, héraðsdýralæknir á Suðurlandi, um málin sem komið hafa upp í hans umdæmi síðustu mánuði. 

Gunnar segir að þegar kettir innbyrði frostlög eyðileggist nýrun í þeim. „Því fylgir gífurlegur sársauki. Dýrunum líður illa og þau fá krampa.“ Hann segir erfitt og nær ómögulegt að snúa ferlinu við þegar það er hafið á annað borð. „Þannig að það sem liggur fyrir þessum greyið dýrum er að vera aflífuð. [...] Svona meðferð á sakleysingjum, dýrum, er andstyggileg. Það má svo ekki gleyma því að þetta eru gæludýr og því ekki aðeins dýrin sem þjást heldur eigendur þeirra líka, jafnvel börn.“

Eitur í fiskibollu?

Sýni úr köttunum þremur á Austurlandi voru send Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum til rannsóknar. Þeir drápust allir vegna nýrnabilunar og segir Hjörtur Magnason, héraðsdýralæknir á Austurlandi, að líkur séu taldar á því að kettirnir hafi innbyrt frostlög. 

Í október fékk Diana Divilekova, dýralæknir á Austurlandi, veikan kött til meðhöndlunar. Fressið var ungt, aðeins um ársgamalt. Hann hafði alltaf verið inni, en einn föstudaginn fór hann út. Þegar hann kom heim nokkrum tímum síðar var hann orðinn veikur. Kötturinn kom til Diönu á mánudeginum og reyndi hún allt hvað hún gat til að bæta líðan hans. Það ótrúlega gerðist svo að kisi hresstist og var sendur heim. En nokkrum dögum síðar veiktist hann aftur og drapst svo í kjölfarið. Diana segir að kötturinn hafi verið ungur og hraustur þar til hann fór út þennan eina dag. Við krufningu á Keldum kom í ljós að um nýrnabilun var að ræða. 

Í febrúar hafði komið upp svipað mál á Austurlandi. Þá fékk Diana til sín kött frá Reyðarfirði. Hann var mjög veikur og fékk krampa. Hann drapst skömmu síðar. Daginn eftir kom sami eigandi með annan kött til meðferðar. Sá var einnig mjög veikur. „Það var ekkert hægt að gera fyrir hann. Við urðum því miður að aflífa hann,“ segir Diana. 

Við krufningu fundust kristallar í nýrum sem bendir til eitrunar af völdum frostlagar, að sögn Diönu. 

Í því tilviki fundu eigendurnir fiskibollu fyrir utan húsið sitt. Var talið mögulegt að hún hefði innihaldið frostlög. Ekki reyndist gerlegt að sanna að svo hefði verið.

Hjörtur héraðsdýralæknir á Austurlandi segir að fyrra málið hafi ekki verið kært formlega en að lögreglan hafi verið látin vita af því. Hvað seinna málið varðar mun hann nú senda stjórnsýslusviði Matvælastofnunar skýrslu um það. Í kjölfarið á hann von á því að málið verði kært til lögreglu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert