Fyrsti formlegi fundur formannanna

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, og …
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Mynd/mbl.is

Fyrsti fundurinn í formlegum stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisfokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar fer fram í dag klukkan 15:30 í herbergi forsætisnefndar Alþingis. Flokkarnir áttu áður í óformlegum viðræðum en ákveðið var laust fyrir áramót að forsendur væru til þess að hefja formlegar viðræður og var ákveðið að fyrsti fundurinn yrði í dag.

„Þetta er einfaldlega liður í þessum stjórnarmyndunarviðræðum,“ segir Gylfi Ólafsson, aðstoðarmaður Benedikts Jóhannessonar formanns Viðreisnar, í samtali við mbl.is. „Það er ekki gert ráð fyrir að þetta verði mjög fjölmennur fundur. Það verða formennirnir með í mesta lagi einn til reiðar.“

Formenn flokkanna þriggja eru auk Benedikts þeir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar.

mbl.is