Meiri skemmdir í höfuðstöðvum OR en talið var

Höfuðstöðvar OR á Bæjarhálsi.
Höfuðstöðvar OR á Bæjarhálsi. mbl.is/Styrmir Kári

Rakaskemmdir í hluta höfuðstöðva OR við Bæjarháls eru meiri en talið var. Vegna þessa þarf að rýma vesturhluta hússins meðan gert er við, en nauðsynlegar viðgerðir verða boðnar út á næstunni. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu félagsins.

Rakaskemmdirnar komu í ljós í ágúst 2015, en þá varð þeirra vart í vesturhúsi höfuðstöðvanna. OR og dótturfélögin Veitur, Orka náttúrunnar og Gagnaveita Reykjavíkur starfa í þremur húsum við Bæjarháls.

Hófst undirbúningur viðgerða strax sama ár og viðgerðir sjálfar um mitt síðasta ár. Í vinnunni síðan hefur komið í ljós að verkið er umfangsmeira en talið var og að það vinnst of hægt meðan starfsemi er enn í húsinu. Því hefur verið ákveðið að rýma allt vesturhúsið við Bæjarháls til að úrbætur taki skemmri tíma. Umfangið er þó slíkt að ekki er gert ráð fyrir að þeim ljúki fyrr en í árslok 2018.

Starfsfólki OR, Orku náttúrunnar og Veitna, sem starfað hafa í Vesturhúsinu verður fundið rými í öðrum hlutum núverandi höfuðstöðva en Gagnaveita Reykjavíkur og þrjú fyrirtæki sem leigt hafa aðstöðu af OR munu þurfa að flytjast annað á framkvæmdatímanum. Fram kemur í tilkynningunni að starfsfólk OR samstæðunnar og leigjendur hafi verið upplýst um þessar ráðstafanir.

Nú þegar hefur kostnaður við viðgerðir og aðrar ráðstafanir vegna skemmdanna numið um 200 milljónum króna. Ekki er vitað hver endanlegur kostnaður verður, en hann mun meðal annars ráðast af niðurstöðu fyrirhugaðs útboðs.

Frétt mbl.is: Viðgerðir gætu reynst dýrar

Frétt mbl.is: Ráðist gegn myglu hjá OR

Frétt mbl.is: Viðgerð á orkuveituhúsi miðar vel

mbl.is