Fengið allt sitt fram á einu ári

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég steig til hliðar á sínum tíma bæði vegna þeirra aðstæðna sem sköpuðust en einnig til þess að gera stjórnvöldum mögulegt að vinna áfram að þeim mikilvægu málum sem ekki hafði verið lokið við, þar á meðal að fylgja eftir áætluninni í haftamálunum, og til þess að ekki þyrfti að koma með önnur útspil eins og að flýta kosningum. Sem var algerlega fráleitt að mínu mati.“

Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, í samtali við mbl.is. Vísar hann þar til ákvörðunar sinnar um að segja af sér embætti forsætisráðherra fyrir ári vegna þeirra aðstæðna sem sköpuðust í kjölfar umfjöllunar um svonefnd Panama-skjöl og aflandsfélag í eigu eiginkonu hans.

Frétt mbl.is: Hefði gert ýmislegt öðruvísi

„Hafandi tekið þetta á mig, ef svo má að orði komast, í trausti þess að hið sanna kæmi í ljós síðar þá auðvitað gramdist manni mjög að það skyldi engu að síður vera boðað til þessara kosninga í óðagoti. Það dró úr trúverðugleika íslenskra stjórnvalda gagnvart þessum aðilum sem við er að eiga í haftamálunum. Þeir sáu að hægt væri að buga ríkisstjórnina.“

Þetta sé síðan að raungerast í dag að mati Sigmundar þegar núverandi stjórnvöld séu farin að opna á það að hverfa frá þeirri áætlun sem mörkuð hafi verið og byggst hafi á því að hagsmunir almennings á Íslandi væru teknir fram fyrir hagsmuni kröfuhafa bankanna og að þeir kröfuhafar sem ekki vildu taka þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabankans á síðasta ári færu aftast í röðina.

„Ætti að vera áhyggjuefni fyrir okkur öll

„Þetta tengist á þann hátt þessum atburðum fyrir ári,“ segir Sigmundur. Boðað hafi verið til kosninga sem skilað hafi ríkisstjórn með aðkomu einstaklinga sem verið hafi í fremstu víglínu þeirra sem barist hafi fyrir því að Íslendingar tækju á sig Icesave-skuldirnar og ekki væri að ganga eftir að fylgt væri þeirri stefnu sem mörkuð hafi verið í haftamálunum.

„Þetta ætti að vera töluvert áhyggjuefni fyrir okkur öll og hvort ég sé að ergja mig yfir þessu skiptir ekki mestu máli. Þetta eru einfaldlega mjög hættuleg skilaboð sem stjórnvöld eru að senda til þeirra sem vildu ekki fylgja leikreglunum heldur kusu að halda áfram að reyna að skapa pólitískan þrýsting innanlands og annað slíkt. Það er að skila þeim árangri.“

Frétt mbl.is: Væru kolröng skilaboð frá stjórnvöldum

Spurður hvaða skilaboð felist í þessu til þeirra sem tóku þátt í gjaldeyrisuppboðinu á þeim forsendum að annars lentu þeir aftast í röðinni, segir Sigmundur að í því felist ljóslega þau skilaboð að það borgi sig ekki að fara eftir leikreglum stjórnvalda heldur þvert á móti.

„Það er auðvitað viðbúið að þeir aðilar taki þessu sérstaklega illa og líti jafnvel svo á að þeir hafi í raun verið plataðir. Hinir virðast stefna í það að hafa náð öllum sínum markmiðum á einu ári. Losna við forsætisráðherrann og ríkisstjórnina, fá nýja ríkisstjórn og nýja stefnu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert