Hertara regluverk um köfun í Silfru

Silfra á Þingvöllum hefur notið mikilla vinsælda meðal ferðamanna.
Silfra á Þingvöllum hefur notið mikilla vinsælda meðal ferðamanna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, fundaði í morgun með Ólafi Erni Haraldssyni þjóðgarðsverði og aðilum frá Samgöngustofu þar sem farið var yfir næstu skref um málefni tengd Silfru. Á fundinum voru teknar ákvarðanir um að herða regluverk um köfun í Silfru en þessar breytingar verða kynntar aðilum innan ferðaþjónustunnar á fundi sem hefst klukkan hálftvö.

Breytingarnar lúta að atriðum sem flestir aðilar innan ferðþjónustunnar eru sammála um að sögn Ólafs Arnar. Í þeim felast breytingar varðandi fjölda kafara með hverjum leiðsögumanni, búnað þeirra, andlegt og líkamlegt heilbrigði fólks, aðgangsstýringu og fleira. Haraldur vildi ekki tjá sig frekar um þessar breytingar fyrr en búið væri að kynna þær fyrir aðilum innan ferðaþjónustunnar.

Framhaldsvinna við greiningu á orsök slysanna 

„Við viljum fá þessa aðila til að skoða regluverkið með okkur. Þetta er sameiginlegt viðfangsefni og við þurfum að fá það á hreint að þessi aðilar séu tilbúnir að gera þessar breytingar sem ég á von á að þeir vilji. Þá getum við opnað Silfru aftur á mánudaginn,“ segir Ólafur Örn.

Jafnframt hefur verið boðað til framhaldsvinnu við greiningu á orsökum slysanna í Silfru, vinnu við áhættumat og mat á öryggisatriðum.

Björt Ólafsdóttir segist ekki eiga von á öðru en að aðilar innan ferðþjónustunnar muni taka vel í þessar breytingar á regluverkinu svo starfsemi þeirra sé sem best úr garði gerð. „Þegar búið er að funda með þessum aðilum ættum við að geta opnað aftur með betri öryggiskröfum og þá ekkert því til fyrirstöðu að gera það á mánudaginn,“ segir Björt.

mbl.is

Bloggað um fréttina