Sjómenn ósáttir við fá ekki úr vinnudeilusjóði ASÍ

Grindavíkurhöfn. Verkfallsjóðir SVG tæmdust í verkfallinu og er félagið ósátt …
Grindavíkurhöfn. Verkfallsjóðir SVG tæmdust í verkfallinu og er félagið ósátt við að fá ekki styrk úr vinnudeilusjóði ASÍ. Sigurður Bogi Sævarsson

Stjórn Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur (SVG) mótmælir harðlega afgreiðslu og afstöðu ASÍ til umsóknar félagsins um styrk úr Vinnudeilusjóði ASÍ. Félagið sótti um greiðslu úr vinnudeilusjóði ASÍ eftir að verkfallssjóðir SVG tæmdust í nýafstöðnu sjómannaverkfalli og synjaði ASÍ þeirri umsókn. Skoðar félagið nú að leita réttar síns.

Í fréttatilkynningu frá SVG segir að komið hafi í ljós þegar umsókn þess var lögð fram að „ekki giltu neinar formlegar reglur um starfsemi og skyldur Vinnudeilusjóðs ASÍ“.  Skrifstofa ASÍ hafi því í kjölfarið farið í að móta tillögur að reglum fyrir sjóðinn og síðan tilkynnt 16. mars sl. að kröfu félagsins væri synjað.

Sú synjun feli í sér að enn frekari dráttur verði á lokagreiðslum til félagsmanna vegna sjómannaverkfallsins.

Reglurnar mótaðar til að hafna kröfu SVG

„Í afstöðu ASÍ kemur fram að sambandið sé hvorki tilbúið að afgreiða úr sjóðnum þá fjárhæð sem SVG óskaði eftir né að veita minni styrk úr sjóðnum,“ segir í tilkynningunni og er afstaða ASÍ sögð byggjast alfarið á reglum sem settar hafi verið eftir að umsókn SVG var lögð fram.

„Stjórn SVG mótmælir harðlega afgreiðslu og afstöðu ASÍ til umsóknar félagsins um styrk úr Vinnudeilusjóði ASÍ. Í fyrsta lagi bendir stjórn SVG á að félagið hafi í hvívetna fullnægt öllum skyldum samkvæmt lögum og reglum ASÍ, þ.m.t. með greiðslu skatta skv. lögum ASÍ. Réttur félagsins til styrks úr Vinnudeilusjóði ASÍ í allsherjarverkfalli sjómanna ætti því að vera nokkuð afdráttarlaus.“

Stjórn SVG telur einnig að reglur sem settar voru eftir að sótt var um greiðslu úr sjóðnum hafi enga þýðingu, enda sé ótækt að beita slíkum reglum og skilyrðum afturvirkt.

„Þá verður ekki betur séð en að ASÍ hafi mótað reglurnar alfarið út frá umsókn SVG með það í huga að hafna umsókninni.“

Segir í tilkynningunni að stjórn SVG skoði nú að leita réttar síns vegna málsins og þá sé sömuleiðis áframhaldandi vera SVG í ASÍ og Sjómannasambandi Íslands einnig til endurskoðunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert