Geirfinnsmál fyrir Hæstarétt eftir páska

Sexmenningarnir sem voru sakfelldir. Efri röð f.v.: Sævar Ciesi­elski, Erla …
Sexmenningarnir sem voru sakfelldir. Efri röð f.v.: Sævar Ciesi­elski, Erla Bolladóttir og Kristján Viðar Viðarsson. Neðri röð f.v.: Tryggvi Leifsson, Albert Kla­hn Skaftason og Guðjón Skarphéðinsson. mbl

Settur ríkissaksóknari í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum mun leggja málið fyrir Hæstarétt fljótlega eftir páska. Er það gert í framhaldi af því að endurupptökunefnd féllst í febrúar á endurupptökubeiðnir er varða fimm menn sem sakfelldir voru í tengslum við mannshvarfsmálin tvö á áttunda áratugnum. Nefndin féllst ekki á endurupptöku sjötta sakborningsins, Erlu Bolladóttur, sem var sakfelld á sínum tíma fyrir að bera rangar sakir á menn við rannsókn málanna.

Það fyrsta sem verður gert, að sögn Davíðs Þórs Björgvinssonar setts ríkissaksóknara í málunum, er að gefið verður út svonefnt fyrirkall til þeirra endurupptökubeiðenda sem hlutu náð endurupptökunefndar og verður þeim gert að mæta fyrir réttinn eftir nánari ákvörðun Hæstaréttar sjálfs.  

Þegar fyrirköllin hafa verið réttilega birt verður þeim komið til Hæstaréttar, sem væntanlega setur málið í málaskrá, útskýrir Davíð Þór. Í framhaldi af því er málsaðilum gefinn frestur til að skila greinargerðum, auk þess sem vinna við gerð ágrips hefst, en það getur verið mjög mikil vinna í svo stór máli, þar sem gögnin hlaupa á þúsundum blaðsíðna. Hann segir ómögulegt að átta sig á því hvað ferlið allt muni taka langan tíma.

Davíð Þór Björgvinsson settur ríkissaksóknari í Guðmundar- og Geirfinnsmálum.
Davíð Þór Björgvinsson settur ríkissaksóknari í Guðmundar- og Geirfinnsmálum. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Með niðurstöðu um endurupptöku er málið núna lögum samkvæmt á þeim stað eins og árfrýjunarstefna hafi verið gefin út. Endurupptakan snýst um að endurtaka beri meðferð málsins fyrir Hæstarétti, að svo miklu leyti sem Hæstiréttur sér ekki annmarka á því, meðal annars í ljósi þess að endurupptökunefnd er stjórnsýslunefnd, en ekki dómstóll.

Nokkrar leiðir mögulegar

„Í greinargerð sem ég skila síðar í þessu ferli tek ég afstöðu til þess hvaða kröfur ég geri,“ segir Davíð Þór. „Einn möguleikinn er sá að krefjast þess að sakfellingarnar standi, eða eftir atvikum að fallið verði frá viðkomandi ákæruliðum eða ég fallist á sýknukröfu sem gera má ráð fyrir að beiðendur muni setja fram. Þá getur þurft að taka afstöðu til álitaefnda sem vakna vegna stöðu endurupptökunefndar sem stjórnsýslunefndar og hvort og í hvaða skilningi Hæstiréttur er bundinn af niðurstöðu nefndarinnar. Þetta verður að koma í ljós og í raun væri mjög óábyrgt af mér að tjá mig frekar um þetta atriði á þessu stigi.“  

Davíð Þór á ekki von á því að af sinni hálfu verði gerð krafa um að einhverjir dómarar við Hæstarétt víki við meðferð málsins. Þær vangaveltur eru að hans mati ótímabærar vegna þess að ekkert liggur fyrir um hvaða dómarar taka sæti í málinu. Af núverandi dómurum réttarins kom einn að endurupptökubeiðni Sævars Ciesielskis á tíunda áratugnum. Þeirri beiðni var hafnað. Má vera að þetta þyki skipta máli þegar ákvörðun er tekin um skipan dómsins. „Ég treysti dómurum Hæstaréttar til að gæta að þessu sjálfir þegar þar að kemur,“ segir Davíð.

Mikilvægt að allir vandi sig

Davíð á von á því að málið verði flutt munnlega fyrir Hæstarétti þegar þar að kemur.

Spurður hvort að ekki sé brýnt að málið fái hraða meðferð í Hæstarétti svarar Davíð Þór: „Þótt það taki mánuði eða jafnvel eitt ár og kannski ríflega það telst það varla langur tími í þessu stóra samhengi. Ég hef í raun litla stjórn á því hversu langan tíma mun taka að fá endanlega niðurstöðu. Þetta verður að hafa sinn gang og mikilvægast að allir vandi sig.“

Guðmundur og Geirfinnur Einarssynir hurfu sporlaust árið 1974. Sexmenningarnir, sem sakfelldir voru í tengslum við hvarf þeirra eru Erla Bolladóttir, Albert Klahn Skaftason, Sævar Ciesielski, Kristján Viðar Viðarsson, Tryggvi Rúnar Leifsson og Guðjón Skarphéðinsson. Þau væru dæmd í 1-17 ára fangelsi í Hæstarétti árið 1980. Sævar og Tryggvi Rúnar eru látnir. Þau voru á aldrinum 20-32 ára er þau voru handtekin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert