Hefðu þurft að fara út um rennuna

Farþegar vélar Primera Air fara frá borði. Guðni segir þá …
Farþegar vélar Primera Air fara frá borði. Guðni segir þá hafa þurft að fara niður rennu ef flugstjórinn hefði opnað vélina strax. Ljósmynd/Margrét Eiríksdóttir

Flugbrautin á Keflavíkurflugvelli var rúmum 800 metrum styttri en venjulega þegar að flugvél Primera Air fór út af brautinni sl. föstudag. Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segir þetta þó ekki eiga að vera ástæðu þeirra erfiðleika sem vélin lenti í við lendingu.

„Brautin er 2.182 metrar, en er venjulega 3.000 metrar,“ segir Guðni. Mbl.is greindi frá því í síðustu viku að unnið er að malbikunarframkvæmdum á flugbrautum Keflavíkurflugvallar sem kynntar voru öllum notendum flugvallarins með árs fyrirvara.

Guðni segir lengd flugbrautarinnar þó eiga að vera nógu langa fyrir flugvél af þessari gerð. Hann nefnir sem dæmi að Akureyrarflugvöllur er með 2.400 metra langa braut, Egilsstaðir með um 2.000 metra langa braut og brautin á Reykjavíkurflugvelli sé í kringum 1.800 metrar. „Á þessum flugvöllum hafa vélar af þessum tegundum lent, þannig að brautin er fyllilega nógu löng þó að hún sé styttri en venjulega.“

Mat vélina öruggari stað en bið úti í snjónum

Ekki liggur enn fyrir hvað olli því að vélinni gekk svo illa að lenda, en mikil rannsóknarvinna er nú í gangi varðandi atvikið. Guðni segir Rannsóknarnefnd samgönguslysa taka við gríðarlegu magni af gögnum þessa dagana frá öllum aðilum sem að atvikinu koma.

Farþegar í vélinni hafa lýsti yfir óánægju með skort á upplýsingum og langa bið í flugvélinni eftir að hún lenti. Guðni segir það hafa verið ákvörðun flugstjórans. „Hann metur það svo að það sé öruggasti staðurinn fyrir farþegana að vera inni í vélinni fyrst að vélin er í lagi og enginn slasaður,“ segir hann. „Annars hefði hann þurft að  setja rennurnar út og farþegarnir hefðu þurft að renna sér niður og hefðu þá verið komnir út í snjókomuna. Þetta er ákvörðun flugstjórans sem ég held að hafi verið rétt á þessum tímapunkti.“

Rúmlega 40 mínútum eftir að vélin lenti fóru síðan fyrstu farþegar um borð í rúturnar. Guðni segir rúturnar hafa verið klárar fyrr, en að flugstjórinn hafi ákveðið á þeim tímapunkti að bíða.

Hann segir það síðan vera flugfélagsins að upplýsa farþegana um gang mála. „Þau munu örugglega fara yfir þetta mál með þjónustuaðila sínum, sem er IGS á Keflavíkurflugvelli í þessu tilfelli. Þau munu örugglega fara yfir hvað er hægt að gera betur.“

Aðgerðastjórn fer í gang þegar atvik eins og þetta á sér stað og í henni eiga sæti fulltrúi frá flugfélaginu, flugvellinum, Rauða krossinum og viðbragðsaðilum eins og lögreglu.  

„Ég held að raunar að þetta sé eitthvað sem allir sem að koma muni skoða,“ bætir hann við.

Ekki verið æfð viðbrögð við atviki þar sem enginn slasast

Reglulegar flugslysaæfingar eru haldnar á Keflavíkurflugvelli og á fjögurra ára fresti er haldinn þar risastór æfing. „Þá eru 200 manns sem leika sjúklinga, aðrir 200 sem leika aðstandendur og svo eru allir viðbragðsaðilar að bjarga fólki og upplýsa aðstandendur. Það snýr hins vegar að því að hlúa að slösuðum. Þarna erum við með atvik þar sem viðbragðið fer allt í gang en það er enginn slasaður,“ segir Guðni.

„Það er kannski eitt sem er hægt að skoða, að það hafa ekki verið æfð viðbrögð við atviki þar sem enginn slasast og það er lærdómur sem að við getum dregið af þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert