Buðu sýrlensku flóttafólki Gullna hringinn

Hópurinn stillti sér upp fyrir myndatöku við Gullfoss.
Hópurinn stillti sér upp fyrir myndatöku við Gullfoss. Ljósmynd/Rauði Krossinn

Sýrlenska flóttafólkið sem komið hefur til Íslands í ár og fyrra var um helgina boðið að skoða Gullna hringinn. Það var ferðaþjónustufyrirtækið Guide to Iceland sem stóð fyrir ferðinni í samstarfi við Rauða krossinn.

Ástamt flóttafólkinu voru með í för túlkar og þær íslensku stuðningsfjölskyldur sem komust með í ferðina. Þeir flóttamenn sem búa á Akureyri komust ekki með í ferðina að þessu sinni. 

Stoppað var í súpu í Friðheimum, þar sem var spilað …
Stoppað var í súpu í Friðheimum, þar sem var spilað og sungið. Ljósmynd/Rauði krossinn

„Flóttafólkinu var ekið frá skrifstofu Rauða Krossins í Reykjavík á tveimur rútum. Stoppað var í Hveragerði og á Selfoss til að ná í enn fleira fólk, en samtals voru rúmlega 100 manns í ferðinni. Þaðan var ekið í Friðheima þar sem var boðið upp á súpu og þar var spilað á gítar og sungið. Þaðan var haldið að Geysi og síðan að Gullfossi áður en fólki var ekið til baka á Selfoss, Hveragerði og til Reykjavíkur,“ er haft eftir Nönnu Gunnarsdóttur hjá Guide to Iceland í fréttatilkynningu.

„Þetta var vel heppnuð ferð og það voru allir hæstánægðir. Það var mikil gleði, hlátur og sumir táruðust meira að segja. Það var gaman að geta sýnt fólkinu þessa fallegu staði og það kunni vel að meta það.“

Mikil gleði var hjá ferðalöngunum.
Mikil gleði var hjá ferðalöngunum. Ljósmynd/Rauði krossinn
mbl.is