Fengu fyrirspurn frá Interpol 7. júlí

Lögregla leitar Louise Soreda.
Lögregla leitar Louise Soreda. Samsett mynd

Lögreglu hér á landi barst fyrirspurn 7. júlí frá Interpol um hina 22 ára gömlu Luise Soreda, frönsku ferðakonuna sem lögreglan á Suðurnesjum lýsti eftir í dag.

Hingað til hefur lögregla m.a. farið yfir farþegalista flugfélaganna en ekki var talin ástæða til að lýsa eftir henni fyrr en í dag í framhaldi af beiðni fjölskyldu konunnar. Soreda kom til Íslands 5. júlí og sást hún síðast á öryggismyndavélum á Keflavíkurflugvelli við komuna til landsins.

Lögregla hefur ekki upplýsingar sem benda til þess að hún hafi farið aftur úr landi né heldur hversu lengi hún hugðist dvelja á Íslandi. Ekki er talið að um neitt saknæmt sé að ræða að sögn lögreglu. 

Soreda hafði meðferðis síma sem hefur verið slökkt á en samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er síminn m.a. það sem rannsakendur fylgjast með.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort hafin verði formleg leit þar sem óskað verði eftir aðstoð björgunarsveita en alþjóðadeild ríkislögreglustjóra er lögreglunni á Suðurnesjum innan handar vegna málsins. Í dag hefur lögreglunni á Suðurnesjum borist fjöldi símtala frá fólki sem telur sig hafa séð Soreda á hinum ýmsu stöðum á landinu en að svo stöddu hefur lögregla engar nákvæmar vísbendingar um hvar hún er niður komin.

Vísir hefur eftir föðursystur Soreda að hún hafi ekki látið fjölskyldu sína vita af ferðum sínum til Íslands og undrast að hún hafi haft meðferðis útilegubúnað. Louise hafi glímt við þunglyndi um nokkurt skeið og segist föðursystirin óttast það versta. 

Þegar síðast var vitað var hún klædd blá­um galla­bux­um, brún­um fjall­göngu­skóm og hvítri peysu. Þá hafði hún meðferðis stór­an rauðan bak­poka ásamt upp­rúllaðri ljós­grárri dýnu. Þeir sem hafa upp­lýs­ing­ar um hvar Louise er niður­kom­in, eða hafa séð hana, geta haft sam­band við lög­regl­una á Suður­nesj­um í síma 444-2200.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert