Jeppabifreið af gerðinni Toyota Land Cruiser, 2000-árgerð, sat í gærkvöldi enn föst á grasbala í Esjuhlíðum, en göngufólk varð vart við bifreiðina í gærmorgun þar sem hún sést sem hvítur depill frá þjóðveginum.
Bifreiðin er í u.þ.b. 400 metra hæð og var því komin langleiðina upp fjallið þegar hún nam staðar. Til samanburðar er „steinninn“ í 587 metra hæð, en fjallið er rúmlega 914 metra hátt, að þvíæ er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Útlit er fyrir að bifreiðinni hafi verið ekið á slóða sem gerður var í síðari heimsstyrjöld og liggur meðfram Rannsóknastöð skógræktar við Mógilsá. Um miðja hæð liggur slóðinn til vesturs og framhjá Þverfellshorni þar sem hann hverfur sjónum og yfir hann grær. Þar situr bifreiðin föst og greinileg og djúp hjólför eru eftir hana í grasi.