Stærsti skjálftinn mældist 4,5 að stærð

Skjálftahrina var í Bárðarbunguöskjunni laust fyrir hádegi í dag.
Skjálftahrina var í Bárðarbunguöskjunni laust fyrir hádegi í dag. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Stærsti jarðskjálftinn sem mældist í skjálftahrinu í Bárðarbungu laust fyrir hádegi í dag var 4,5 að stærð. Skjálftinn varð klukkan 11:24 og átti upptök sín við norðurjaðar Bárðarbunguöskjunnar. Að sögn sérfræðings eru engin merki um gosóróa á svæðinu.

Annar skjálfti af stærð 3,8 varð á sömu slóðum skömmu áður, klukkan 11:09, en skjálftahrinan sem var stutt stóð yfir frá um klukkan ellefu til hálftólf í dag. „Þetta gerist alltaf reglulega að það komi smá skjálftahrinur þarna með stórum skjálftum og svo nokkrum minni,“ segir Kristín Elísa Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, í samtali við mbl.is.

Þrátt fyrir að ekkert óeðlilegt sé við skjálftavirkni á svæðinu segir Kristín skjálftann vera í stærri kantinum miðað við það sem gengur og gerist. „Þetta er bara þarna í öskjunni. Eftir gosið sem varð 2014-15, þá voru náttúrlega svo mikil átök þarna og þetta er bara áframhald af þeim hræringum,“ útskýrir Kristín.

Aðspurð segir hún ólíklegt að fólk hafi fundið fyrir skjálftanum þar sem upptök hans eru það langt frá allri byggð.

„Ég myndi telja það svona frekar ólíklegt að það hafi eitthvað margir fundið fyrir þessu,“ segir Kristín. „Það gæti alveg verið þegar það er eitthvað fólk þarna kannski upp við Herðubreið, það gæti hafa fundið fyrir skjálftanum, en þetta er bara svo rosalega langt frá öllum byggðum að það er alls ekkert víst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert