Allt eða ekkert hjá Guðfinnu

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina.
Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, mun annað hvort víkja af vettvangi borgarmála næsta vor eða sækjast eftir oddvitasæti Framsóknarflokksins. Hún segir ákvörðun sína ekki tengjast ummælum Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, núverandi oddvita, þar sem hún lýsti skoðunum sín­um á mennt­un barna úr hópi hæl­is­leit­enda á Íslandi.

Sveinbjörg sagði í viðtali við Útvarp Sögu í síðustu viku að mikill kostnaður fylgdi því að taka á móti börnum sem væru í leit að alþjóðlegri vernd. Börnin færu fljótlega og þegar búið væri að vísa fjölskyldunum úr landi væri þetta að einhverju leyti sokkinn kostnaður.

Það hefur legið fyrir núna í einhvern tíma innan flokksins að ég muni taka ákvörðun um það í haust hvort ég gefi kost á mér áfram. Það yrði þá bara í fyrsta sætið,“ segir Guðfinna í samtali við mbl.is.

Guðfinna segir flokksmenn hafa hvatt hana til að taka slaginn og sækjast eftir oddvitasætinu í borginni. „Ég hef fundið fyrir stuðningi innan flokksins fyrir því í töluverðan tíma,“ segir hún.

Hún vill ekkert segja til um hvort samstarf hennar og Sveinbjargar sé stirt en núverandi oddviti hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir ummæli sín. „Ég ætla ekki að fara út í eitthvað persónulegt,“ segir Guðfinna.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í viðtali við RÚV í gær að ummæli Sveinbjargar væru óheppileg og endurspegluðu ekki stefnu flokksins. Þá hefur stjórn fé­lags ungra Fram­sókn­ar­manna í Reykja­vík lýs­t yfir van­trausti á Svein­björgu og stjórn Sam­bands ungra Fram­sókn­ar­manna mótmælt ummælum hennar harðlega.

Guðfinna segist undanfarin þrjú ár hafa einbeitt sér að húsnæðisvandanum í Reykjavík og mögulegum lausnum. „Það er stór húsnæðisvandi og stefna borgarinnar hefur valdið vanda sem sér ekki fyrir endann á. Þetta eru húsnæðismálin og samgöngumálin sem verða stærstu kosningamálin næsta vor.“

mbl.is

Bloggað um fréttina