Í veg fyrir að peningar falli af himnum

Ljósmynd/Páll Kvaran

Í einu fá­tæk­asta landi heims vinn­ur Íslend­ing­ur að því að koma í veg fyrir að peningar falli af himnum ofan. Bók­staf­lega! Páll Kvar­an hef­ur und­an­far­in fimm ár unnið að ýms­um þró­un­ar­verk­efn­um í Úganda en und­an­far­in tvö ár hef­ur hann verið hjá ráðgjafa­fyr­ir­tæki á sviði farsíma­pen­inga.

Farsíma­pen­inga­hug­takið hljóm­ar e.t.v. frem­ur frum­stætt í eyr­um Vest­ur­landa­búa og þá ekki síst Íslend­inga, þar sem tæp 90 pró­sent þjóðar­inn­ar eiga snjallsíma. Verk­efnið geng­ur út á að nýta farsíma af „gamla skól­an­um“ sem greiðslu­kort og heima­banka. Þar geta ein­stak­ling­ar sótt um lán eða stofnað sparnaðar­reikn­inga en hvort tveggja þekk­ist varla meðal al­menn­ings í land­inu.

Ljósmynd/Páll Kvaran

„Farsíma­pen­ing­ar er ört stækk­andi geiri hér í Úganda og öðrum Afr­íku­lönd­um. Hérna úti er meira að segja allra fá­tæk­asta fólkið með farsíma og bank­arn­ir byrjaðir að bjóða uppá þjón­ustu í gegn­um sím­ana. Ýmsar þró­un­ar­stofn­an­ir hafa unnið að út­breiðslu farsíma­pen­inga til að auka aðgengi fólks að fjár­málaþjón­ustu,“ seg­ir Páll en hann vinn­ur með Sam­einuðu þjóðunum og rann­sókn­ar­stofn­un Alþjóðabank­ans að út­breiðslu starf­ræna fjár­málaaðgeng­is­ins.

Páll vinn­ur m.a. með tefram­leiðanda sem borg­ar átta til níu þúsund manns laun á tveggja vikna fresti. „Fyr­ir­tækið borg­ar átta til níu þúsund manns á tveggja vikna fresti með því að setja pen­inga í flug­vél og henda þeim út úr flug­vél­inni til fólks­ins á ferð. Við erum að stoppa pen­inga frá því að falla af hinum ofan í einu fá­tæk­asta landi heims,“ seg­ir Páll.

„Þeir setja pen­ing­ana í þunga poka og henda ein­um poka í hvert skipti. Eitt skiptið hitti flugmaður­inn ekki á rétt­an stað og pok­inn lenti á þak­inu á skrif­stof­unni hjá fram­leiðand­an­um, í gegn­um þakið og fót­braut bók­ara fyr­ir­tæk­is­ins sem sat við skrif­borðið í Excel,“ seg­ir Páll.

Hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft

„Við hjálp­um m.a. fyr­ir­tækj­um að borga starfs­mönn­um sín­um með farsíma­pen­ing­um og með því fær fólk aðgengi að fjár­málaþjón­ustu, s.s. sparnaðar­reikn­ing­um með vöxt­um og aðgengi að lán­um fyr­ir fjár­fest­ingu. Úganda er eitt frjó­sam­asta land í heim, allt sprett­ur eins vel og hugs­ast gæti á jörðinni, en þrátt fyr­ir það eru bænd­ur ekki að rækta mikið á hverja ekru. Smá­bænd­ur gætu verið að meðaltali verið með allt af fimmfalt stærri upp­skeru en þeir eru með núna,“ seg­ir Páll en stór ástæða er skort­ur á láns­fé til fjárfestinga. Fræ­in eru lé­leg og ekki notað nóg af áburði. 

Ljósmynd/Páll Kvaran

„Hug­mynd­in sú að með því að borga þess­um bænd­um með farsíma­pen­ing­um geta þeir í framtíðinni fengið aðgengi að lán­um til að geta keypt áburðinn og betri fræ, eða öðrum fjárfestingum“ seg­ir hann.

Páll seg­ir að með farsíma­pen­ing­un­um sé verið að skapa ákveðna innviði sem „hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft“. Hann seg­ir mörg þró­un­ar­verk­efni fel­ast í því að ákveða fyr­ir fólk hvað sé best fyr­ir það, svo sem með því að gefa bænd­um svín eða hænsni. 

„Núna eru að spretta upp lít­il fyr­ir­tæki sem bjóða upp á alls kon­ar þjón­ustu í gegn­um farsím­ana. Bænd­ur geta t.d. fengið aðgang að veður­spánni sem skipt­ir miklu máli uppá að vita hvenær eigi að planta. Svo eru alls kon­ar lána­fyr­ir­tæki kom­in á markaðinn, vext­ir lækka og lækka eft­ir því sem sam­keppn­in eykst á þess­um markaði,“ seg­ir Páll. 

Enn sem komið er eru lán­in sem veitt eru í gegn­um farsím­ana lág og til skamms tíma. Millj­ónir hafa tekið svona lán síðan þau komu á markaðinn fyr­ir um ári síðan að sögn Páls og hafa t.a.m. versl­un­ar­menn tekið slík skamm­tíma­lán til að auka skil­virkni við sín inn­kaup sem eyk­ur þar með við út­flutn­ing lands­ins. 

„Það já­kvæða fyr­ir bænd­ur og fá­tæk­ara fólk í Úganda er að fólkið er ekki að taka mikla áhættu með þessi lán því þau eru veðlaus. EF þú borg­ar ekki verður ekki tekið af þér landið eða húsið,“ seg­ir Páll.

Kann vel við sig í Úganda

Páll lauk námi í HHS, heim­speki, hag­fræði og stjórn­mála­fræði frá há­skól­an­um á Bif­röst og fékk þá áhuga á þró­un­ar­fræðum og kláraði hann meist­ara­nám í þeim við Oxford há­skóla.

Um tíma starfaði hann hjá Þró­un­ar­sam­vinnu­stofn­un í Úganda. Þaðan fór hann og starfaði í kring­um um­hverf­is­mál í Úganda og síðan í land­búnaðinn. „Ég kom heim í ár en ákvað svo að fara út aft­ur og verð verð bara hér. Hér er alltaf gott veður og menn­ing­in æðis­legt, fólkið er vina­legt,“ seg­ir Páll sem er bú­sett­ur í höfuðborg­inni Kampala.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert