Sýnt fram á tengslasamband við myglu

Raki og mygla. Tengslarannsóknir benda til þess að ef skoðaður …
Raki og mygla. Tengslarannsóknir benda til þess að ef skoðaður er hópur af mönnum, þá séu þeir sem búa við heilsuspillandi húsnæði t.d. raka, myglu og annað þvíumlíkt líklegri til að vera með öndunarfæraeinkenni en hinir. mbl.is/Golli

Til er töluvert af tengslarannsóknum sem sýna fram á að þeir sem búa í húsnæði þar sem er mygla, að þeir eru mun líklegri til að fá öndunarfæraeinkenni og óþægindi í öndunarfæri. Þetta segir Mikael Clausen, barna- og barnaofnæmislæknir á Landspítalanum.

Mikael segir hins vegar rétt hjá Kára Stefánssyni að ekki hafi verið hægt að sýna vísindalega fram á að það sé myglan sem faldi einkennunum. Kári ritaði grein í Fréttablaðið í gær, þar sem hann sagði ekki búið sé að sýna fram á með vísindalegum aðferðum að myglusveppir í húsum vegi að heilsu manna.

„Það er munur á tengslasambandi og orsakasambandi og það er rétt hjá Kára að það hefur ekki tekist að sýna nákvæmlega fram á hver orsakatengslin séu,“  segir Mikael. Vísindamenn, líkt og Kári, vilji hins vegar fá haldgóð rök til að sýna fram á orsök hlutanna.

Mikael segir margar rannsóknir þó hafa verið unnar hér á landi og annars staðar þar sem tengslin hafa fundist. „En það hefur ekki tekist að skýra ferilinn nægjanlega eða hvernig orsakasamhengið er.“

Fullt af öðrum efnum sem losna

„Tengslin benda þó til þess að ef skoðaður er hópur af mönnum, þá séu þeir sem búa við heilsuspillandi húsnæði t.d. raka, myglu og annað þvíumlíkt líklegri til að vera með öndunarfæraeinkenni.“ Mikael segist nefna öndunarfæraeinkennin sem dæmi, þar sem að það séu þau einkenni sem er búið að skoða mest.

Til sé þó flóra annarra einkenna sem fólk telji sig fá af að búa í húsi með rakaskemmdum, þar með talið myglu. „Það er fullt af öðrum efnum sem losna líka, m.a. þalöt og önnur efni sem losni úr plastefnum.  Þetta er eitthvað sem hefur aldrei verið mikill áhugi á að ræða hér á Íslandi af einhverjum ástæðum,“ segir Mikael.

Ekki hægt að vera 100% viss

Það sé líka eðlilegt að leita skýringa á veikindum, meini eða óþægindum sem maður finni fyrir. „ Ef menn telja þetta vera orsakað af myglunni, þá sitjum við hins vegar uppi með það að við getum ekki verið viss um að það sé 100% rétt.“

Hann segir möguleg áhrif myglu á heilsu manna því vera eitthvað sem menn séu tregir til að ræða. „Það er af því að það vantar eitthvað þarna í. Það er ekkert mál að ræða það sem liggur ljóst fyrir og þess vegna ýta menn þessu frá sér,“ útskýrir Mikael. „Þetta er hins vegar eitthvað sem ekki hefur verið hægt að sýna fram á og sanna. Þess vegna finnst læknum þetta líka óþægilegt, af því að þetta er svolítið í lausu lofti.

Það er hins vegar deginum ljósara að það að búa í heilsuspillandi húsnæði er aldrei gott og þess vegna er alltaf góð hugmynd að gera við hús sem lekur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert