Fátt kemur í veg fyrir kosningar 4. nóv.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands á ...
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands á Bessastöðum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Flest bendir til þess að efnt verði til alþingiskosninga þann 4. nóvember næstkomandi. Bjarni Benediktsson baðst lausnar frá embætti á fundi sínum með Guðna Th. Jóhannessyni á Bessastöðum í morgun og lagði til að boðað yrði til kosninga 4. nóvember. Svo virðist sem kosningabarátta sé hafin.

Forseti féllst á lausnarbeiðni Bjarna og átti í kjölfarið fundi með formönnum allra þeirra flokka sem sæti eiga á Alþingi og innti eftir afstöðu þeirra til þess að kosið yrði til Alþingis í byrjun nóvember. Að því er fram kom í máli allra þeirra stjórnmálamanna sem mættu til Bessastaða í dag virðist sem enginn flokkanna leggist gegn því að kosningar fari fram 4. nóvember.

Birgitta Jónsdóttir pírati mun ekki gefa kost á sér aftur ...
Birgitta Jónsdóttir pírati mun ekki gefa kost á sér aftur til setu á Alþingi. mbl.is/Árni Sæberg

Litlar, en þó einhverjar, þreifingar virðast hafa verið til að mynda nýjan meirihluta á Alþingi og hafa formenn flokkanna margir rætt saman. Svo virðist þó sem enginn fótur sé fyrir því að mynda nýja ríkisstjórn miðað við núverandi samsetningu þingsins.

Ekki hefur enn verið lögð inn beiðni um þingrof en Bjarni Benediktsson mun aftur eiga fund með forseta strax eftir helgi og fátt virðist að svo stöddu benda til annars en að kosið verði 4. nóvember.

Viðreisn tekur afstöðu um starfsstjórn eftir helgi

Þá fór forsetinn þess á leit við forsætisráðherra að hér muni starfsstjórn, skipuð þeim ráðherrum er þegar sitja í embætti, starfa þar til ný ríkisstjórn hefur verið mynduð en meirihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar er fallin eftir að síðastnefndi flokkurinn sleit sig frá samstarfinu.

Benedikt Jóhannesson á Bessastöðum í dag.
Benedikt Jóhannesson á Bessastöðum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni segir að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins muni verða við beiðni forseta um að sitja í starfsstjórn og það munu ráðherrar Bjartrar framtíðar gera einnig að sögn Óttars Proppé, formanns flokksins. Að því er fram kom í máli Benedikts Jóhannessonar, formanns Viðreisnar, mun hann gefa forseta endanlegt svar um það eftir helgi hvort ráðherrar flokksins fallist á að sitja í starfsstjórninni.

Frétt mbl.is: „Þessu ríkisstjórnarsamstarfi er lokið“

Ráðgjafaráð Viðreisnar hefur ályktað að flokkurinn vilji ekki starfa í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum með þau Bjarna og Sigríði Á. Anderssen dómsmálaráðherra innanborðs en Benedikt ítrekaði það í samtali við fjölmiðla á Bessastöðum í dag að eðli starfsstjórnar sé allt annað en ríkisstjórnar sem starfi í umboði meirihluta Alþingis.

Sjálfstæðisflokkurinn gengur beinn í baki til kosninga

Þegar Bjarni Benediktsson var spurður hvernig hann mæti stöðu sína í stjórnmálum í ljósi atburðarásar undanfarinna sólarhringa segist Bjarni hafa fundið fyrir miklum stuðningi og að flokkur hans muni ganga beinn í baki til kosninga.

„Það eru feykilega mikil sóknarfæri fyrir Ísland á næstu árum en það þarf sterka ríkisstjórn með góðan meirihluta og við munum ganga til þessara kosninga með það í huga að styrkja stöðu okkar enn frekar á þinginu og vera áfram kjölfestan í íslenskum stjórnmálum,“ sagði Bjarni.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á Bessastöðum í dag.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á Bessastöðum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins var áformaður sömu helgi og nú stendur til að boða til kosninga og segir Bjarni að nú verði það að öllum líkindum rætt í miðstjórn flokksins hvort fundinn verði annar tími fyrir landsfund en frá því að Ólöf Nordal féll frá hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið án varaformanns.

En af hverju vill Bjarni boða til kosninga 4. nóvember?

„Lög og stjórnarskrá gera ekki ráð fyrir því að menn láti of langan tíma frá því að þessar aðstæður skapast þar til að kosið er. Það er ekki boðið upp á það samkvæmt lögum að það líði nema 45 dagar frá því að þing er rofið hið mesta,“ svaraði Bjarni að loknum fundi hans með forseta í dag.

Kvaðst hann vilja ná sátt meðal allra flokka um þá dagsetningu sem verði fyrir valinu, ef upp kæmi um það ágreiningur muni hann hins vegar leggja fram tillögu um þingrof til forseta. Að lokinni atburðarásinni á Bessastöðum í dag virðist þó sem nokkur samstaða sé um dagsetninguna 4. nóvember.

mbl.is