Formenn flokkanna funda aftur í dag

Formenn allra stjórnmálaflokka sem sitja á þingi funda aftur í …
Formenn allra stjórnmálaflokka sem sitja á þingi funda aftur í dagmeð forseta Alþingis um störf þingsins fram að kosningum. mbl.is/Eggert

Forseti Alþingis mun funda með öllum formönnum flokka sem eiga sæti á Alþingi klukkan 12:30 í dag. Á fundinum verður rætt með hvaða hætti verður hægt að ljúka þingstörfum fyrir kosningar. Hvort hægt verði að ná sameiginlegri niðurstöðu um einhver mál eða gera málamiðlanir.

Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, fundaði með formönnum flokkanna á mánudag en engin skýr niðurstaða fékkst á þeim fundi. Að loknum fundinum á mánudag sagði Unnur: „Þau mál sem for­menn flokk­anna gátu sam­mælst um að skoða frek­ar eru kom­in í ákveðinn far­veg og þegar þeirri at­hug­un er lokið hitt­umst við að nýju á miðviku­dag­inn og reyn­um að átta okk­ur á því hvernig við get­um haldið áfram.“ Tilgangurinn fundarins í dag er að halda áfram með viðræðurnar.

Birgir Ármannsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins segir hluti hugsanlega skýrast að fundinum loknum.

„Menn voru með ákveðin mál á borðinu sem var verið að ræða. Á fundinum í dag er gert ráð fyrir framhaldi viðræðna. Kannski skýrast hlutir eitthvað að þeim fundi loknum,“ segir Birgir í samtali við mbl.is

„Það er auðvitað þannig að menn eru að ræða saman um það hvernig hægt sé að ljúka þingstörfum með skikkanlegum hætti. Menn halda áfram að tala saman á meðan einhver atriði eru óljós í því sambandi,“ segir hann ennfremur.

Fram kom á fundinum á mánudag að meðal þeirra mála sem þingmenn vilja leggja áherslu á að ná samstöðu um eru breytingar á útlendingalögum og lögfestingu á notendastýrðri persónuþjónustu, NPA.

mbl.is