Ekki tilefni til athugunar á embættisfærslum

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, kom á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar …
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, kom á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun. mbl.is/Eggert

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, telur ekki tilefni til þess að embætti hans taki embættisfærslur ráðherra í tengslum við að Sigríður Andersen dómsmálaráðherra tjáði Bjarna Benedikssyni forsætisráðherra að faðir hans hefði skrifað undir meðmæli fyrir dæmdan barnaníðing þegar hann sótti um uppreist æru, til athugunar að eigin frumkvæði.

Tryggvi kom á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun til að ræða um uppreist æru, þær reglur sem gilda, framkvæmdina og hvaða álitamál kunni að vera uppi. Hann gerði nefndinni grein fyrir afstöðu sinni. „Ég gerði grein fyrir því að eftir þá athugun sem ég hef gert á því sem fyrir liggur þá hef ég ekki talið tilefni til þess,“ sagði Tryggvi eftir fundinn.

Þingmenn annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins hafa talað um trúnaðarbrest af hálfu ráðherra í tengslum við umrætt mál, og var það meðal annars ástæðan fyrir því að Björt framtíð ákvað að slíta stjórnarsamstarfi í viku síðan.

Tryggvi segist hafa farið yfir reglur um trúnað með nefndinni. „Ég hef farið yfir þær reglur sem gilda um trúnað í þessum málum með nefndinni og útskýrt þær, hvernig þær horfa við mér. Ég held að það sé rétt að leyfa nefndinni að fjalla um það.“

Kann að vera tilefni til að taka mál fyrir að nýju

Á fundinum gerði Tryggvi einnig grein fyrir afstöðu sinni til athugunar á framkvæmd uppreist æru, en hann telur ekki þörf á henni fyrst framkvæmdavaldið hefur vilja til lagfæra ákveðna vankanta sem á henni kunna að vera. En í dómsmálaráðuneytinu er þegar hafin vinna við breytingar á lögum er varða uppreist æru og óflekkað mannorð og stefnt er að því að ekki verði lengur í boði að fá uppreist æru.

„Það hefur alltaf verið mín afstaða að á meðan framkvæmdavaldið vill endurskoða hlutina og færa þá til betri vegar, þá verði að bíða og sjá hvað kemur út úr þeirri vinnu. Þegar sú niðurstaða liggur fyrir þá kann að vera tilefni til að taka mál fyrir að nýju. Framkvæmdavaldið er þannig að þar eru sérfræðingarnir til að vinna úr þessu, taka við ábendingum, bæði þings og þjóðar, og að mínum dómi er rétt að bíða,“ sagði Tryggvi að lokum.

mbl.is