„Kergja“ í fíkniefnadeildinni í mörg ár

Aldís Hilmarsdóttir.
Aldís Hilmarsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

„Það var gömul kergja í deildinni sem er búin að vera í mörg ár og mín aðkoma kannski svolítið lyfti þessu teppi,“ segir Aldís Hilmarsdóttir, fyrr­ver­andi yf­ir­maður fíkni­efna­deild­ar lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu. Nú stendur yfir aðalmeðferð í máli Aldísar sem stefndi ís­lenska rík­inu vegna ákvörðunar Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, lög­reglu­stjór­a á höfuðborg­ar­svæðinu, um að færa hana til í starfi.

Aldís segir ekki rétt, sem haldið hafi verið fram í gögnum málsins og málflutningi lögreglustjórans, að deildin hafi verið óstarfshæf undir hennar stjórn. Aldís segir störf miðlægu deildarinnar hafa sóst vel, hún hafi komið inn í erfiðar aðstæður í deildinni og undir hafi kraumað miklir erfiðleikar og hiti, meðal annars vegna meintra spillingarmála tveggja lögreglufulltrúa við deildina.

Annar þeirra, Jens Gunnarsson, var síðar dæmdur fyrir misferli í starfi en hinn var hreinsaður af ásökunum að lokinni rannsókn. Sá hafði átt í nánu samstarfi við Aldísi innan deildarinnar en sjálf hafði Aldís enga aðkomu að meintum spillingarmálum og hefur ekki verið grunuð um slíkt.

Upphaflega kveðst Aldís ekki hafa fundið mikið fyrir samskiptavanda á eigin skinni en menn hafi þó komið til hennar og kvartað. Vinnustaðasálfræðingur var fenginn til að kanna þann samskiptavanda sem uppi var innan embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og voru millistjórnendur, þeirra á meðal Aldís, boðaðir í viðtal vinnustaðasálfræðings.

Upp frá þessu viðtali segir Aldís að henni hafi byrjað að berast póstar og fundarboð frá lögreglustjóra, hún hafi byrjað að „skipta sér af öllu sem hún væri að gera,“ og Sigríður Björk hafi oft verið í samskiptum við sína undirmenn án nokkurrar milligöngu við hana.

Kveðst hafa komið Aldísi til varnar

Sigríður Björk var fyrst til að bera vitni í málinu í dag og segir hún að henni hafi borist kvartanir frá fjölda undirmanna Aldísar um frammistöðu hennar sem yfirmanns. Hún hafi aftur á móti hlíft Aldísi frá vantrausti sem nokkrir lögreglufulltrúar innan deildarinnar hafi hótað, og hún gert allt sem í hennar valdi stæði til að koma henni til varnar og að hún fengi tækifæri til að öðlast meiri reynslu í hlutverki yfirmanns við deildina. 

Spillingarmál setti allt í uppnám í deildinni að sögn Sigríðar Bjarkar en þar hafi ekki verið við Aldísi að sakast. Aftur á móti hafi reynst erfitt að eiga í samskiptum við hana til að taka á vandanum. „Ég reyndi að hjálpa henni og mér fannst hún ekki vera að hlusta á mig,“ sagði Sigríður Björk. Aldís og hennar næsti yfirmaður hafi verið í algjörri afneitun gagnvart ástandinu í deildinni.

Að sögn Sigríðar Bjarkar var Aldís treg og erfið samskiptum. „Þú lýgur svo mikið að þú veist ekki hvenær þú ert að ljúga,“ segir Sigríður Björk meðal annars að Aldís hafi sagt við sig á einum tímapunkti. Kveðst Sigríður gera sér grein fyrir því staða Aldísar hafi verið erfið, starf yfirmanns við fíkniefnadeild sé eitt það allra erfiðasta innan raða lögreglunnar og því fylgi mikið álag.

„Þetta er það erfiðasta sem ég hef fengið á mínum ferli síðan 1996, heiftin og átökin hafi verið svo mikil og fjölmiðlaumfjöllunin einnig,“ segir Sigríður Björk, um aðstæður innan deildarinnar.

Missti mannaforráð með tilfærslunni

Í starfi sínu sem yfirmaður deildarinnar hafði Aldís mannaforráð yfir um 20 manns en síðar bættust við fleiri þegar önnur miðlæg deild lögreglunnar var sameinuð undir deild Aldísar. Ákvörðun lögreglustjóra um tilfærslu hennar í starfi fól aftur á móti í sér að Aldís sinnti verkefnum við að ljúka innleiðingarferli vegna breytinga sem fyrirhugaðar voru og stóðu yfir hjá embættinu og hafði ekki í för með sér nokkur mannaforráð.

Að sögn Sigríðar Bjarkar stóð þó alltaf til að Aldís snéri aftur til baka í starf yfirmanns við deildina að loknu ráðningarferli nýrra lögreglufulltrúa en deilur snérust meðal annars að því að einhverjir umsækjenda hefðu gert athugasemd við aðkomu Aldísar við ráðningu í stöðurnar.

Fer fram á bætur og ógildingu ákvörðunar

Telur Aldís að ákvörðun um breytingu á starfsskyldu hennar hafi verið stjórnvaldsákvörðun sem byggð hafi verið á ómálefnalegum forsendum og tekin án þess að viðhlítandi ákvæði laga og reglna stjórnsýsluréttar hafi verið gætt. Þá hafi ákvörðunin í raun falið í sér „dulbúna og fyrirvaralausa brottvikningu.“ Loks hafi henni ekki verið veittur réttur til að andmæla ákvörðuninni auk þess sem hún hafi orðið fyrir miklu áfalli og glímt við andleg veikindi í kjölfar upplifun sinnar í starfi.

Í kjölfar ákvörðunar lögreglustjórans um að færa Aldísi til í starfi, sem og vegna þess sem á undan gekk, leitaði Aldís á heilsuhælið í Hveragerði þar sem hún dvaldi fyrst í tvær vikur og síðan aftur í fjórar vikur. Geðlæknir, hjúkrunarfræðingur og sálfræðingur báru vitni um það fyrir dómi í dag að Aldís hefði sýnt greinileg einkenni þunglyndis, áfallastreituröskunar og kulnunar og að sögn sálfræðings var hægt að tala um að Aldís hefði glímt við „andlegt hrun“ í kjölfar atburðanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert