„Einu veseninu minna“

Ingvari Ari Arason og Anna Gyða Pétursdóttir hafa staðið í …
Ingvari Ari Arason og Anna Gyða Pétursdóttir hafa staðið í ströngu upp á síðkastið. Ljósmynd/Aðsend

Hjónin Ingvar Ari Arason og Anna Gyða Pétursdóttir, sem misstu aleiguna eftir að upp komst um veggjatítlu í húsi þeirra, hafa fengið vilyrði fyrir því að byggja 150 til 180 fermetra steinhús í stað bárujárnshússins á Austurgötu 36 í Hafnarfirði.

Skipulags- og byggingaráð Hafnarfjarðar samþykkti breytt deiluskipulag fyrir lóðina í dag.

„Þetta er einu veseninu minna,“ segir Ingvar Ari í samtali við mbl.is.

Þarf samþykkta teikningu og grenndarkynningu

Þrátt fyrir vilyrðið hafa hjónin ekki fengið endanlegt leyfi fyrir því að rífa bárujárnshúsið. Sömuleiðis þarf að samþykkja teikningu af nýja húsinu, auk þess sem fara þarf í gegnum sex vikna grenndarkynningu.

Um gamaldags steinhús er að ræða í líkingu við þau sem voru byggð í kringum 1920 til 1930. Algengt er að þau séu hvít með svörtu þaki, að sögn Ingvars Ara, sem bætir við að þau hafi verið kölluð „skipstjórahúsin“. Þau voru meðal annars byggð í Hafnarfirði og er nokkur slík að finna í Austurgötu.

Spurður hvenær gamla húsið verður rifið segist hann fyrst vilja vita nákvæmlega hvað þau fá að byggja á lóðinni og því ætla þau að bíða eftir stimpluðum teikningum af húsinu frá bænum.

Veggjatítlur eru mun útbreiddari en almenningur gerir sér grein fyrir.
Veggjatítlur eru mun útbreiddari en almenningur gerir sér grein fyrir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Alltaf einhver flækjufótur 

Hann segir allt ferlið hjá bænum eftir að í ljós kom um veggjatítlurnar hafa verið bæði þunglamalegt og langdregið. „Það er voðalega sérstakt hvernig þetta er allt unnið hjá bænum. Það er eins og maður sé orðinn kerfisfræðingur við að fara í gegnum kerfið. Þetta er líklega hundrað sinnum erfiðara heldur en ég hélt,“ greinir hann frá.

„Þetta er það erfitt að ég eiginlega veit ekki hvernig við erum búin að standa upprétt í þessu,“ segir hann og bætir við að flest kvöld hafi farið í að skrifa tölvupósta og lesa sér til um aðalskipulag, deiliskipulag, miðbæjarásýnd og fleira í þeim dúr. „Alltaf kemur einhver flækjufótur í málið þegar þetta fer í blessaða pólitíkina.“ Nefnir hann óskir þeirra um að fá niðurfelld fasteignagjöld af bárujárnshúsinu sem dæmi. „Af hverju mönnum er ekki leiðbeint í gegnum þetta, ég bara næ því ekki.“

Sem betur fer þau en ekki aðrir

Hjónin hafa dvalið í leiguhúsnæði að undanförnu í næsta nágrenni við hús sitt við Austurgötu. „Það var virkilega velviljað fólk sem bauð okkur leiguíbúð eftir 1.800 deilingar á Facebook. Við þurfum ekki að skipta um skóla fyrir strákinn. Það er virkilega fallegt hvað fólk er búið að gera fyrir okkur.“

Spurður hvort það verði ekki kostnaðarsamt að rífa eitt hús og byggja annað segir Ingvar Ari að þetta verði gert með íslensku leiðinni. „Það verður settur undir sig hausinn og haldið áfram. Sem betur fer vorum það við sem lentum í þessu en ekki aðrir. Ég er lærður húsasmiður og báðir bræður mínir eru húsasmiðameistarar og konan mín er lærður verkefnastjóri. Ég hef þekkingu á að byggja hús og hún hefur þekkingu á að senda ógrynni af tölvupóstum,“ segir hann í léttum dúr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert