Eins og óargadýr inn í samfélag í sárum

Vigdís Grímsdóttir skólastjóri, Hrefna Þorvaldsdóttir matráður og Elín Agla Briem …
Vigdís Grímsdóttir skólastjóri, Hrefna Þorvaldsdóttir matráður og Elín Agla Briem kennari ræða málin í eldhúsinu í Finnbogastaðaskóla. mbl.is/Golli

Í fyrra fluttu þrjár fjölskyldur, þeirra á meðal yngstu bændurnir, frá Árneshreppi á Ströndum, minnsta sveitarfélagi landsins. Fimm börn voru í þessum hópi. Slíkt hafði mikil áhrif í litlu samfélagi þar sem hver íbúi getur skipt sköpum og skólahald í Finnbogastaðaskóla, sem á sér áttatíu ára samfellda sögu, var í uppnámi. Um hríð var útlit fyrir að kennsla myndi leggjast af í vetur en það bjargaðist á elleftu stundu og nú eru tvö börn í skólanum.

Staðan í sveitarfélaginu er því erfið og líklegt að ekki verði kennt í skólanum eftir áramót þar sem til stendur að bæði börnin fari annað til náms. „Það er sárt að hugsa til þess að þá muni barnsraddirnar á Ströndum þagna,“ segir Elín Agla Briem sem er kennari við Finnbogastaðaskóla.

Á þessum viðkvæma tímapunkti í samfélagi sem hefur í áratugi barist fyrir samgöngubótum og annarri nauðsynlegri innviðauppbyggingu hefst svo umræða um fyrirhugaða Hvalárvirkjun af krafti. Ólík sjónarmið kallast á en þegar íbúarnir eru orðnir vonlitlir um að ríkisvaldið fari í nauðsynlegar vegabætur, svo byggðin verði ekki nær einangruð í nokkrar vikur á hverju ári, taka því sumir fagnandi að einkafyrirtækin Vesturverk og HS Orka ætli sér í virkjanaframkvæmdir í hreppnum og lofi samhliða ýmsum umbótum, s.s. ljósleiðara, þriggja fasa rafmagni, betri vegi til Ófeigsfjarðar, sumarvegi yfir Ófeigsfjarðarheiði og jafnvel hitaveitu í hluta hreppsins. Allt eru þetta þó hlutir sem flest byggðarlög á Íslandi hafa nú þegar og þykja sjálfsagðir í nútímasamfélagi.

Elín Agla segir það mikinn harm að virkjanahugmyndirnar skuli koma upp í samfélaginu á Ströndum á þessum tíma. „Hér hefur verið mikil fólksfækkun og það er auðvitað viðkvæmt mál að horfa upp á möguleg endalok búskapar hér sem á sér 1200 ára óslitna sögu.

Tveir jakkar og tvennir skór hanga í fatahenginu í anddyri …
Tveir jakkar og tvennir skór hanga í fatahenginu í anddyri Finnbogastaðaskóla þetta árið. Aðeins tveir nemendur eru í skólanum. mbl.is/Golli

Mér finnst erfitt að framkvæmdaaðilar noti þetta mál til að spila á tilfinningar fólks. Þeir segjast vera að koma hingað til að styrkja innviði. Það er gagnrýnivert að gera slíkt hér núna, þegar tilfinningar eru svona hráar og staðan erfið. Við hefðum einmitt þurft að hafa hér næði til að vinna úr þessu áfalli saman, finna okkar leiðir til að takast á við það og byggja upp á ný. Virkjanaáformin koma eins og óargadýr inn í samfélagið á meðan þetta er allt að gerast.“

Vigdís Grímsdóttir rithöfundur er skólastjóri í Finnbogastaðaskóla í vetur. Hún hefur áður kennt þar og búið í Árneshreppi um lengri og skemmri tíma síðustu ár.

Hún segir það áhugavert sjónarhorn sem sumir hafa viðrað í tengslum við virkjanaáformin að fáir komi á svæðið sem nú sé undir og að fáir viti af því yfir höfuð. „Þá sé í lagi að ryðjast inn í landið, berja það niður og eyða fossunum,“ segir Vigdís. „Fyrir mér er þetta spurning um tilfinningar, maður ræðst ekki á móður sína. Og það er ekkert „nema“ í því sambandi, að það megi ekki nema að það sé gott fyrir okkur. Við eigum að vera orðin upplýstari í dag. Það er aldrei þess virði að ryðjast svona inn í landið og misþyrma því. Íslendingar eru á móti ofbeldi og níðingshætti, það hefur sýnt sig síðustu daga.“

Sömu vinirnir þrátt fyrir skiptar skoðanir

En hver eru áhrif umræðunnar um virkjanamálin í fámenninu í Árneshreppi sem klofnaði í harðri deilu um kirkjubyggingar fyrir nokkrum áratugum?

„Þetta á að vera voðalega erfitt að mati margra og fólk á ekki að geta talað saman ef það hefur ekki sömu skoðun,“ segir Vigdís. „En það er ekki þannig hér og nú. Fólk er ekki sammála, vinir manns vilja virkja. En þeir eru sömu vinir mínir fyrir það.“

Hrefna Þorvaldsdóttir, matráður í Finnbogastaðaskóla, hefur búið í Árneshreppi í yfir þrjá áratugi. Hún segir hættulegt ef núningur yrði milli þeirra sem annars vegar eru hlynntir virkjun og hins vegar þeirra sem eru það ekki. Hvernig sem fer að lokum. „Þessi virkjun hefur nákvæmlega ekkert með það að gera hvort hér verði áfram heilsársbúseta eða hvort hún leggist af.“

Jóhanna Engilráð og Vigdís Grace eru einu nemendur Finnbogastaðaskóla í …
Jóhanna Engilráð og Vigdís Grace eru einu nemendur Finnbogastaðaskóla í Árneshreppinn. Það er þó oft líf og fjör í kennslustundum með skólastjóranum Vigdísi Grímsdóttur. mbl.is/Golli

Óttast að heilsársbúseta leggist af

Árið 1998 voru 72 með lögheimili í Árneshreppi. Í ár eru þeir 46. Um þrjátíu búa þar í vetur, aðrir eru burtu vegna vinnu eða skóla. Skiljanlega eru því allir uggandi yfir ástandinu og óttast að að því geti komið að byggðin leggist í eyði og að þar verði aðeins búið yfir sumarmánuðina.

 „Þegar framkvæmdir eru gerðar á óbyggðum víðernum verður að rökstyðja það með því að almannahagsmunir séu í húfi,“ segir Elín Agla. „Því er nú gripið til byggðasjónarmiða, að þessi virkjun eigi að bjarga byggðinni. En þetta er einkafyrirtæki sem er að hugsa um sína arðsemi. Þeir ættu að vera heiðarlegir með það í stað þess að bjóðast til að klæða skólann að utan,“ segir hún.

Þær segja íbúana vanda sig við að láta ekki virkjanamálið hanga eins og óveðursský yfir sér í hversdagslífinu. Í litlum hreppi þurfi allir að standa saman og einmitt þannig er það í Árneshreppi.

Þó fámennt sé í Árneshreppi hefur tekist að halda uppi …
Þó fámennt sé í Árneshreppi hefur tekist að halda uppi skólahaldi. Allt þar til nú. Um áramót mun Finnbogastaðaskóla verða lokað. mbl.is/Golli

Elín Agla segir að þrátt fyrir þetta sé ljóst að málið yfirtaki önnur mál sem þurfi að ræða og takast á við í hreppnum, svo sem að mögulega þurfi að loka einu versluninni á staðnum og að skólastarf sé í uppnámi. „Þetta er svo stórt mál og frekt, það passar illa í samhengið hérna. En það má ekki gleyma því að það er engin virkjun þarna ennþá.“

Stórkarlalegir virkjanadraumar

Hún segir að því sé enn tækifæri til að hugsa málin upp á nýtt. „Svona stórkarlalegir virkjunardraumar eru sem betur fer á undanhaldi þótt lengi lifi í gömlum glæðum. En það er dularfullt hvað stjórnmálamenn eru hljóðir í þessu máli, líka þeir sem kenna sig við náttúruvernd. En þeir sækja auðvitað ekki atkvæði sín í Árneshrepp, til þess erum við alltof fámenn. Ég vil að stjórnmálamenn taki afstöðu í þessu máli, til þess að erlendir aðilar séu að spila með víðerni og náttúru okkar Íslendinga fyrir einkagróða sem fluttur er úr landi.“

Allir vilja að það íbúum í hreppnum fjölgi á ný. Til þess eru þegar ágætar aðstæður þó enn vanti mikið upp á. Nettengingar eru til að mynda góðar. Vigdís nefnir að hún hafi skrifað þrjár bækur á meðan hún hefur búið í Árneshreppi og aldrei hafi verið vandamál að senda prófarkir eða annað frá sér og eiga í samskiptum við fólk í gegnum netið. „Það er gaman og gott að búa hérna. Það hefur ekkert með virkjun að gera. Þó að hér yrði fullt af fólki á framkvæmdatímanum yrði það mestmegnis uppi á fjöllum. Svo færi það. Virkjun hér er ekki svarið til að byggja upp þennan yndislega hrepp. Hún myndi aðeins rífa hann niður.“

Umræðan skipti um kúrs

Þegar aðalskipulagi Árneshrepps var síðast breytt fyrir nokkrum árum var gert ráð fyrir mögulegri virkjun í hreppnum. Þá áttu nokkur föst störf til framtíðar að fylgja henni sem og íbúðarhús fyrir starfsmennina. Það hefur nú allt breyst og samkvæmt breytingatillögu sem nú bíður afgreiðslu hreppsnefndar eru engin íbúðarhús, aðeins tímabundnar vinnubúðir. Engin heilsársstörf myndu skapast eftir að virkjunin yrði byggð.

En umræðan snýst ekki lengur um það mikla hagsmunamál Árneshrepps.

Jóhanna Engilráð Hrafnsdóttir styttir sér leið yfir girðinguna við Finnbogastaðaskóla …
Jóhanna Engilráð Hrafnsdóttir styttir sér leið yfir girðinguna við Finnbogastaðaskóla í Trékyllisvík. mbl.is/Golli

 „Núna er þetta allt í einu farið að snúast um borgarbúa gegn Vestfirðingum,“ segir Elín Agla og Vigdís bætir við að fólk að sunnan sé skammað fyrir að skipta sér af málinu. Geri það slíkt sé það sagt á móti Vestfirðingum og fyrir það vill auðvitað enginn vera þekktur. „Og slík orðræða hefur áhrif. Fólk hikar við að tjá sig og segja sína skoðun því það vill ekki gera lítið úr Vestfirðingum,“ segir Elín Agla. „En staðreyndin er sú að Vestfirðingar eru að átta sig á að þetta er ekki sú bót á rafmagni og afhendingaröryggi sem virkjunaraðilar hafa haldið fram. Iðnaðarráðherra viðurkenndi á borgarafundi á Ísafirði að þetta væri einmitt ekki sú hringtenging sem Vestfirðingar hafa beðið svo lengi eftir. Og þá eru fallin rök virkjunaraðila um almannahagsmuni, hvort sem er í Árneshreppi eða Vestfjörðum.“

Reyndi að fara en missti tennur

En hvers vegna settist rithöfundurinn Vigdís að í Árneshreppi stóran hluta ársins á meðan aðrir eru að flytja þaðan?

 „Ég kom hingað eina helgi fyrir tíu árum. Svo reyndi ég að fara héðan en kom strax aftur,“ segir hún og hlær. „Ég reyndi aftur að fara héðan í fyrra en það bara gekk ekki. Ég missti tennur og byrjaði að brotna, í orðsins fyllstu merkingu. Svo ég kom aftur. Hann kallar á mann þessi hreppur, þetta umhverfi og þetta fólk.“

Skólastjórinn Vigdís Grímsdóttir leiðbeinir Jóhönnu Engilráð.
Skólastjórinn Vigdís Grímsdóttir leiðbeinir Jóhönnu Engilráð. mbl.is/Golli

Hún hefur vetursetu í Árneshreppi en á sumrin dvelur hún hins vegar oft annars staðar. Því er hins vegar öfugt farið með flesta sem hópast í hreppinn á sumrin til strandveiða, þjónustustarfa og sumarfría.

 „Það er gaman að kenna i fámennum skóla. Og við sjáum allaf fyrir okkur að hingað fari að þyrpast nemendur. Draumur er tækifæri,“ segir Vigdís. „Nemendurnir eru ekki komnir en þeir koma.“

En hvað þarf að gerast svo að það verði raunin?

„Fólk vill helst ekki búa þar sem ekki eru samgöngur allt árið,“ segir Hrefna. „Og þar sem ekki er læknir, það er vont fyrir fólk með ung börn,“ bætir Vigdís við. „Það er hægt en það þarf kjark til þess,“ segir Hrefna.

Engin einangrun

Elín Agla bendir á að eitthvað stórkostlegt hafi breyst í hugsun fólks á síðustu áratugum. „Héðan af Ströndum fór enginn til Vesturheims á sínum tíma. Þetta var svo mikil matarkista, fólk gat lifað hér góðu lífi. En svo breyttist eitthvað í samfélaginu og þankaganginum og nú finnst flestum að það sé ekki hægt að búa hér. Fólk segir það bókstaflega. Því langar jafnvel að setjast hér að en segir það einfaldlega ekki hægt. Það er eitthvað í hugsun okkar sem hefur breyst.“

Vigdís segir að fólk telji að einangrunin í Árneshreppi sé of mikil. „En þannig er það alls ekki. Hér kemur maður miklu í verk því það er ekki þetta stöðuga áreiti. Einangrun er alltaf aðeins í huga fólks, ekki í landinu sjálfu.“

Elín Agla bendir á að engin opinber störf, sem hægt er t.d. að vinna í fjarvinnu, hafi verið búin til eða flutt í Árneshrepp. „Þrjú slík störf hér væru atvinnubylting,“ bendir hún á.

Horft út um gluggann á Finnbogastaðaskóla. Við blasa tvær kirkjur …
Horft út um gluggann á Finnbogastaðaskóla. Við blasa tvær kirkjur sem mikill styr stóð um fyrir nokkrum áratugum. mbl.is/Golli

Þær benda á að ósnortið land, kyrrð og ró, sé sífellt að verða mikilvægara í samfélagi manna. Að auki sé þetta mjög dýrmæt auðlind í ferðaþjónustu sem er orðin stærsta atvinnugrein á Íslandi. Árneshreppur gæti verið kjörlendi til að virkja þessa krafta til að laða að ferðamenn, jafnvel allan ársins hring. Myrkrið, norðurljósin og kyrrðin gætu verið fjársjóðir til framtíðar. „Margir hafa aldrei upplifað slíkt þó að okkur Íslendingum finnist það sjálfsagt í dag. Það er fullt af fólki sem hefur aldrei upplifað myrkur, svo dæmi sé tekið,“ segir Hrefna. „Ef fólk vill setjast hér að og skapa sér atvinnu ætti allt að vera hægt. Möguleikarnir eru miklir.“

Telur að menn eigi eftir að sjá að sér

Spurð hvort þær telji að niðurstaðan verði sú að hætt verði við virkjunina segist Vigdís vera bjartsýn á það. „Auðvitað, það hvarflar ekki að mér að menn leggist svona lágt að fara að eyðileggja landið. Þessi hugsunarháttur á bara að vera liðinn. Ég held að það verði engin virkjun. Ég held að menn eigi eftir að sjá að sér.“

Hrefnu finnst málið fyrst og fremst sorglegt. „Mér finnst sorg í því að þetta sé að gerast á þessum tíma og mér finnst sorg í því að það séu utanaðkomandi öfl sem séu að reyna að reka fleyg í samfélagið hérna. Það er ekki okkar vilji, að fara upp á móti hvert öðru.“

 „Þetta er rosalega stórt mál að leggja á hreppsnefnd í litlu sveitarfélagi,“ segir Elín Agla. Í Árneshreppi eru persónukosningar þar sem kosning er ekki bundin við framboð. Fólk getur aðeins skorast undan nefndarsetu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. „Það er mikið lagt á þessa sveitarstjórn á þessum tíma, þar sem reynt er að halda því fram að virkjun gæti skipt sköpum um framtíð búsetu í hreppnum.“

Þrúgandi farg á herðunum

Hrefna situr í hreppsnefndinni. Hún hefur ekki tölu á þeim klukkustundum eða þeim blaðsíðum sem hún hefur lesið til að kynna sér málið til að geta tekið upplýsta ákvörðun.

„Það er bara þrúgandi að hafa þetta farg á herðunum,“ viðurkennir hún. „Mér finnst eitthvað athugavert við það að það þurfi þrjár manneskjur í Árneshreppi til að taka þessa stóru ákvörðun. Þetta er risavaxið verkefni og óhemjumikil vinna að skoða framkvæmdina fyrirhuguðu og möguleg áhrif hennar hér. En þetta þurfum við engu að síður að gera til að geta tekið ákvörðunina eins og okkur ber að gera lögum samkvæmt.“

Í Árneshreppi eru 46 með lögheimili og 30 hafa vetursetur …
Í Árneshreppi eru 46 með lögheimili og 30 hafa vetursetur í hreppnum. Um áramót verður 80 ára skólasaga hreppsins rofin. mbl.is/Golli

Hrefna hefur óskað eftir því að frekari umfjöllun hreppsnefndar um málið í heild verði frestað þar til línur fari að skýrast í bókstaflegri merkingu; þ.e. hvernig virkjunin verði tengd við flutningsnetið og hvar. „Það á engin leyfi að gefa fyrr en það er alveg á hreinu hvort að hægt er leggja jarðstreng í stað háspennulína frá virkjuninni og hvar tengipunktur verður.“

Þá sé enn fleiri mikilvægum spurningum ósvarað, s.s. í hvað nota eigi raforkuna sem Hvalárvirkjun á að framleiða.

Hún segir raforkuframleiðslu á Íslandi það mikla að hún eigi að nægja fyrir íbúa landsins og atvinnulífið. „En ef við ætlum að halda áfram að láta mestan hluta raforkunnar fara til risafyrirtækja þá er ekki nóg af henni og þá þarf að ganga frekar á auðlindirnar okkar,“ segir Hrefna. „Þetta er því pólitísk spurning, hvaða stefnu við viljum taka.“

Kraftur fæst við mörk víðerna

Elín Agla flutti fyrst til Árneshrepps árið 2007. Hún segist þó aðeins nýlega hafa áttað sig á því hvað það sé sem geri þennan stað svo magnaðan. „Það er af því að Árneshreppur er algjörlega við mörk víðerna. Vegurinn endar hér. Það hefur áhrif á allt og alla.“ Hún segir málið ekki snúast um það hvort að hún og aðrir sjái virkjunina á heiðinni eða ekki. Þetta snúist um það að vita af henni. Ákvörðun og framkvæmd sem þessi verði aldrei tekin til baka og hún hafi miklu meiri afleiðingar en fólk átti sig almennt á. „Að brjóta þetta svæði undir virkjun breytir því hver við erum sem fólk,“ segir Elín Agla með áherslu, „hvort sem er hér í þessu litla samfélagi eða sem þjóð. Við verðum öðruvísi með því að fara svona gegn náttúrunni. Að græða megi á öllu er ekki lífvænleg menning til lengdar. Það er svo mikið í húfi, þetta er svo stórt inngrip. Hér hefur fólk í þessu fíngerða samfélagi lifað með náttúrunni í yfir þúsund ár. Því mun ljúka með þessu. Það er eins og náttúrulögmál í mínum huga að þegar við sigrumst á víðernum þá töpum við heima fyrir.“

Jóhanna og Vigdís Grace liggja yfir námsbókunum í Finnbogastaðaskóla.
Jóhanna og Vigdís Grace liggja yfir námsbókunum í Finnbogastaðaskóla. mbl.is/Golli

Hún er þó ekki bjartsýn á að hætt verði við virkjanaáformin. „Ég hef ekki mikla trú á því. Ég er nú orðin það sjóuð að ég hef séð þetta gerast áður, þar sem peningavöld og pólitísk öfl hafa betur.“

Í hennar huga er málið í raun mjög einfalt. Með virkjun sé verið að fara gegn náttúrunni og skerða mikil víðerni. „Þarna er einkafyrirtæki sem vill hámarka arð sinn til hluthafa. Sá stærsti er Kanadamaður. Þarna eru svo landeigendur að fá verulegar fjárhæðir, annar þeirra er ítalskur barón. Þetta eru staðreyndir sem við þurfum að muna þegar við hlustum á röksemdir þeirra.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert