Vilja takmarka aðgengi að rafrettum

Notkun rafretta er tiltölulega ný hér á landi.
Notkun rafretta er tiltölulega ný hér á landi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Félagar í Læknafélagi Íslands hafa skorað á heilbrigðisráðherra og heilbrigðisyfirvöld að tryggja með lögum og/eða reglugerðum að aðgengi að rafrettum (veipum) sé takmarkað.

Í áskoruninni, sem var samþykkt einróma á aðalfundi Læknafélagsins á föstudag, segir meðal annars að það sé „óviðunandi að þeim frábæra árangri sem náðst hefur í tóbaksvörnum á Íslandi sé ógnað með heilsuspillandi athæfi. Æskilegt er að aðgengið sé takmarkað við lyfjaverslanir og ekki selt ungmennum undir 18 ára.“

Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, telur að sömu lög og reglur eigi að gilda um rafrettur og sígarettur. „Það hafa verið umræður um það hvernig eigi að bregðast við þessum nýja möguleika og sitt hefur sýnst hverjum um það,“ segir Reynir í samtali við mbl.is.

Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands.
Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Hann segir það áhyggjuefni að rafrettur og varningur þeim tengdum sé selt í búðum án takmarkaðs aðgengi. „Við teljum að þetta sé eitt form af reykingum og að það sé mikilvægt að það sé takmarkað aðgengi, sérstaklega fyrir ungt fólk undir 18 ára aldri.“

Tilgangurinn sé þó ekki að koma í veg fyrir aðgang þeirra sem eru að reyna að hætta að reykja að rafrettum. „Við viljum ekki koma í veg fyrir að einstaklingar sem hafa reynt önnur úrræði til að hætta að reykja geti nýtt sér þetta en að aðgengi verði í gegnum lyfjaverslanir.“ 

Hafa mestar áhyggjur af ungu fólki

Notkun rafretta er tiltölulega ný hér á landi og telur Reynir að mikilvægt sé að setja skýrar reglur um notkun og aðgengi þeirra sem fyrst. „Það er deilt um áhrif reykinganna og hversu heilsuspillandi þær eru. Þetta form er nýlega komið fram og ekki miklar rannsóknir sem liggja fyrir.“

Reynir segir að þær rannsóknir sem komið hafa fram bendi þó til þess að rafrettur geti haft slæm áhrif á heilsuna. „Það eru efni í þessu eins og rotvarnarefni sem hafa óæskileg áhrif á lungu og lungnafrumur og þess vegna er mikilvæg að stíga varlega til jarðar í hvernig við leyfum þessu að koma inn á markaðinn.“ Reynir segir að með ályktuninni sé fyrst og fremst verið að hugsa til fólks undir 18 ára. „Mestar áhyggjur höfum við af unglingum, að þetta leiði til þess að þau fari að reykja og ánetjist nikótíni sem leiði svo til annarrar neyslu á sígarettum eða tóbaki.“

Slæmt að missa góðan árangur í forvörnum

Að mati Reynis eru forvarnir gríðarlega mikilvægar þegar kemur að rafrettum, líkt og með almennar reykingar. „Við höfum náð gífurlega góðum árangri í reykingavörnum á undanförnum árum í öllum aldurshópum og það væri afar slæmt að missa þann góða árangur vegna þess að við opnum fyrir aðgengi á rafrettum og nikótíni sem er fíkniefni.“

Reynir segir að hugmyndir Læknafélagsins séu í samræmi við þær reglugerðir sem samþykktar hafa verið í New York, þar sem bann gegn því að nota rafrett­ur tekur gildi í næsta mánuði. Rafrett­ur munu þá falla und­ir sömu lög og síga­rett­ur, það er að bannað verður að reykja á al­menn­um svæðum inn­an­dyra, svo sem á veit­inga­stöðum, bör­um og á skrif­stof­um. „Það eiga að gilda sömu reglur um þetta varðandi reykingar á opinberum stöðum eins og um neyslu á öðru tóbaki.“

Frétt mbl.is: Banna notkun á rafrettum innandyra

Ekki allir læknar á sama máli

Þó svo að ályktun Læknafélagsins hafi verið samþykkt einróma á fundinum eru ekki allir læknar þeirrar skoðunar að notkun rafretta sé hættuleg og skaðleg heilsu fólks til langs tíma. Þeirra á meðal er Guðmundur Karl Snæbjörnsson sem sagði í samtali við Morgunblaðið í sumar að forsendur sem gefnar eru í frum­varpi heil­brigðisráðherra um að fella veip­ur (rafrett­ur) und­ir sömu regl­ur og tób­ak séu úreltar og byggi á hræðsluáróðri en ekki vísindum.

„Það fer ekki á milli mála að það eru aðrir læknar sem telja að eigi að opna þetta alveg og telja ekki að komin séu fram nægilega vísindaleg gögn til þess að réttlæta takmörkum á þessu. Það sama var nú sagt um sígarettureykingar á sínum tíma, að þetta væri skaðlaust og hættulaust. Við viljum stíga miklu varlegar til jarðar,“ segir Reynir.  

Félagar í Læknafélagi Íslands vilja að rafrettur og varningur þeim …
Félagar í Læknafélagi Íslands vilja að rafrettur og varningur þeim tengdum verði aðeins seldur í lyfjaverslunum.

Eitt af fyrstu verkefnum nýs heilbrigðisráðherra

Frumvarp heilbrigðisráðherra var sent til velferðarnefndar til umfjöllunar í apríl en nefndaráliti hefur ekki verið skilað. Þá lagði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, fram frumvarp um rafrettur og tengdar vörur á Alþingi í mars síðastliðnum. Frumvarpið komst hins vegar ekki á dagskrá fyrir þinglok.

„Ég held að eitt af fyrstu verkefnum nýs ráðherra verði að leggja þetta fram aftur og vonandi verður tekið tillit til okkar ályktunar, sem er líka samhljóma ályktun Krabbameinsfélag Íslands. Við vonum að nýr ráðherra muni hlusta á það,“ segir Reynir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert