Lyktin finnst enn við Öræfajökul

Hvannadalshnjúkur í Öræfajökli.
Hvannadalshnjúkur í Öræfajökli. mbl.is/Sigurður Bogi

„Lögreglumaður fór á svæðið í morgun og fann lykt,“ segir Hulda Rós Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, um þróun mála við Öræfajökul. Í gær fannst sterk brennisteinslykt við Kvíaá, sem rennur undan Kvíárjökli í suðausturhluta Öræfajökuls.

Við fyrsta tækifæri stendur til að koma fyrir sjálfvirkum mælum á svæðinu. „Við sendum mæla austur í dag og fáum lögreglumenn til að gera handvirkar mælingar en brennisteinslykt fannst bæði í morgun og í gærkvöldi,“ segir hún.

Hulda segir að lyktin bendi til þess að jarðhitavatn renni undan jöklinum. Um uppruna vatnsins viti hún ekki. Spurð hvort uppruni lyktarinnar geti verið sá sami og lyktarinnar sem fannst við Kverkfjöll á dögunum segir hún að svo sé ekki. Þar sé um að ræða annað vatnasvið.

Hulda segir að mælarnir verði settir upp á nokkrum stöðum umhverfis Öræfajökul en ekki hafa borist fregnir af brennisteinslykt úr öðrum ám sem undan jöklinum renna. Hún segir að mælarnir muni meðal annars mæla rafleiðni í vatninu.

Skjálftavirkni hefur að sögn Huldu aukist undir jöklinum síðustu mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert