Ný stjórn útbúi nýtt fjárlagafrumvarp

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fráfarandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fráfarandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og formaður Viðreisnar. mbl.is/Golli

„Væntanleg ríkisstjórn vill koma saman sem fyrst en byggja á gamla fjárlagafrumvarpinu. Það er enginn bragur á því að mínu mati,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fráfarandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og formaður Viðreisnar, eftir fund allra formanna flokka á Alþingi nú síðdegis. 

Segir hún stjórnarandstöðuflokkana frekar vilja gefa fyrirhugaðri ríkisstjórn aðeins lengri tíma til að útbúa fjárlagafrumvarp með sínum pólitísku áherslum. Segir hún þá möguleika á því að þingið geti komið saman í síðasta lagi dagana 11. eða 12. desember. 

„Þau voru fyrst að hugsa um 8. desember en svo var 15. desember nefndur en ég tel möguleika á að við komum saman 11. eða 12. desember með öllu því sem þarf í undirbúningi,“ segir hún.

Eigi að geta gengið hratt fyrir sig

Þorgerður segist hafa trú á því að fyrirhuguð ríkisstjórn geti unnið nýtt fjárlagafrumvarp á skjótan hátt, þar sem mikil vinna hafi þegar verið unnin. „Þau eru búin að vera í þrjár vikur að tala saman, meðal annars um fjárlagafrumvarpið svo þau eiga að vera vel undirbúin og þetta á að geta gengið hratt fyrir sig. Þau eiga ekki að geta falið sig á bak við „computer says no“.“

Segir hún stöðuna aðra en í fyrra þegar allir flokkar sameinuðust um að afgreiða þáverandi fjárlagafrumvarp. „Það er mikilvægt og þýðingarmikið að ný ríkisstjórn setji strax mark sitt á nýtt fjárlagafrumvarp og beri ábyrgð á því.“

Stjórnarandstaðan fái formennsku í þrjár nefndir

Spurð um það hvort nefndaskipan hafi verið rædd á fundinum segir Þorgerður að samkvæmt D’Hondt-reglunni eigi stjórnarandstaðan rétt á þremur formannssætum í nefndir. „Þau lögðu til að fá þrjá tiltekna formenn og við förum bara vel yfir það og hugsanlega komum með tillögu á móti,“ segir hún. 

En var stjórnarandstöðuflokkunum kynntur stjórnarsáttmálinn? „Nei, það er ekki verið að fara yfir stjórnarsáttmálann með okkur hér í þinginu, sem er að vissu leyti sérstakt þar sem það er verið að gera það með öðrum,“ segir Þorgerður. „En það gerist væntanlega í næstu viku þegar það er búið að kynna hann allri þjóðinni.“

Spurð um það hvernig henni lítist á fyrirhugaða ríkisstjórn og þingið framundan segir hún sér lítast ágætlega á. „Þetta verður örugglega ágæt ríkisstjórn með ágætu fólki og örugglega fín á ákveðnum sviðum en verri á öðrum,“ segir hún. „Auðvitað er ég með það í huga að ég sé þau ekki endilega hafa kjark til ákveðinna kerfisbreytinga, og þá er ég ekki að tala um endilega bara í landbúnaði og sjávarútvegi heldur líka í heilbrigðismálum og menntamálum. Það þarf líka þor í að breyta og hrófla við kerfinu.“

En hvernig verður stjórnarandstaðan? „Við ætlum ekki að vera illskeytt eða meinfýsin en við ætlum að vera beinskeytt og málefnaleg. Ætli við verðum ekki hörð en sanngjörn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert