Fólk sé ekki á ferðinni að óþörfu

mbl.is/Hjörtur

Lögreglan á Eskifirði biðlar til íbúa í bænum að vera ekki á ferðinni að óþörfu vegna vonskuveðurs og ófærðar. Þetta segir í fréttatilkynningu. Þar kemur fram að fjöldi bíla sé fastur og björgunarsveitir hafi verið kallaðar út vegna þess.

„Það er bara vont veður hérna fyrir austan og skefur fljótt í,“ segir Bergmann Þór Kristjánsson, formaður Björgunarsveitarinnar Brimrúnar á Eskifirði, í samtali við mbl.is. Við slíkar aðstæður sé frekar auðvelt að festa sig. Hann segir aðspurður að sveitin hafi aðstoðað um tíu bíla í bænum sem hafi verið fastir.

Gul viðvörun er í gildi hjá Veðurstofunni vegna Austfjarða en spáin kveður á um norðan og norðvestan 15-23 metra á sekúndu og hviður 25-40 m/s. Það gangi á með éljum og líkur séu á skafrenningi. Varasamar aðstæður séu til aksturs, sér í lagi á fjallvegum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert