Óvissa um fjölda umsækjenda um vernd

Húsnæði velferðarráðuneytisins.
Húsnæði velferðarráðuneytisins. Eggert Jóhannesson

Mikil óvissa er um fjölda umsækjenda um vernd á næsta ári en gera má ráð fyrir fjölgun bæði tilhæfulausra umsókna um vernd og einnig umsókna þar sem tilvik eru flóknari, að því er kemur fram í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár.

Þar segir að stefnt sé að lækkun kostnaðar við þjónustu með hraðari málsmeðferð. Hins vegar geti hraðari málsmeðferð haft í för með sér meiri kostnað í byrjun sem lækki til lengri tíma litið.

Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2018 er áætluð 3.673 milljónir króna og hækkar um 1.828,5 milljónir frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum sem nema 87,4 milljónum.

Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:

  • Framlag til hælismála eru aukið um 1.573,9 milljónir til að mæta viðvarandi fjölgun hælisumsókna. Með viðbótarframlaginu verða heildarframlög til fjárlagaliðarins 2.688,3 milljónir
  • Framlag til kærunefndar útlendingamála er aukið um 171,4 milljónir þannig að nefndin standi undir viðunandi málshraða úrskurða í málefnum hælisleitenda
  • Framlag til Útlendingastofnunar er aukið um 166,6 milljónir þannig að stofnunin geti haldið ásættanlegum málshraða hælisumsókna, auk viðbótarkostnaðar við húsnæði.

Fram kemur í frumvarpinu það markmið, að fjölga kvótaflóttamönnum sem Ísland tekur á móti í samstarfi við Flóttamannastofnun SÞ, í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þá á að innleiða tillögur nefndar um fyrirkomulag heildstæðrar móttöku flóttafólks í því skyni að tryggja samræmi í þjónustu óháð  því hvort það komi sem kvótaflóttafólk eða á eigin vegum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert