Röð byrjuð að myndast á vellinum

Beðið eftir flugi í Leifsstöð.
Beðið eftir flugi í Leifsstöð. mbl.is/Hari

Biðröð er byrjuð að myndast fyrir utan söluskrifstofu Icelandair við innritunarborðin í flugstöð Leifs Eiríkssonar, segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia. Upp úr viðræðum flugvirkja og Icelandair slitnaði um fjögurleytið í nótt og ekki hefur verið boðað til nýs fundar milli deiluaðila.

Búið er að aflýsa sjö af fimmtán flugferðum til og frá Íslandi og áfangastaða í Evrópu í dag og að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúar Icelandair, er flogið á átta áfangastaði. Allar flugvélar eru sneisafullar af farþegum enda margir á ferðinni í tilefni jóla. „Þetta er mjög erfið staða,“ segir Guðjón Arngrímsson í samtali við mbl.is í morgun. 

Hann segir að Icelandair leggi kapp á að fá fólk sem ætlar að millilenda á Íslandi til þess að fljúga á annan hátt á sinn lokaáfangastað. Starfsfólk Icelandair vinnur hörðum höndum að því að koma þessum farþegum leiðar sinnar með öðrum flugfélögum svo fólk endi ekki sem strandaglópar hér á landi.

Icelandair hefur þegar aflýst einhverjum flugferðum til og frá Keflavíkurflugvelli í dag en verkfall flugvirkja hófst klukkan sex í gærmorgun. Að sögn Guðjóns Helgasonar myndaðist einnig röð við söluskrifstofuna í gær en um er að ræða farþega sem komnir eru út á flugvöll en flugi þeirra hefur verið aflýst og eins flugfarþegar sem eru að millilenda hér á leið til annarra áfangastaða í Evrópu en komast ekki lengra en hingað þar sem búið er að aflýsa flugferðum þeirra. 

Starfsfólk Isavia reynir að aðstoða fólk eftir fremsta megni og kom meðal annars fyrir stólum fyrir þá sem biðu í gær og eins bauð það fólkinu upp á vatn og samlokur.

Guðjón Arngrímsson segir að ekki hafi verið boðað til nýs fundar í deilunni en hann á von að það skýrist síðar í dag.

Hér er hægt að sjá hvaða flugferðum hefur verið aflýst

mbl.is