Komust langleiðina með leiðréttinguna

Samningurinn er styttri en flugvirkjar hjá Icelandair lögðu upp með.
Samningurinn er styttri en flugvirkjar hjá Icelandair lögðu upp með. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Óskar Einarsson, formaður Flugvirkjafélags Íslands, segir að flugvirkjar hafi komist langleiðina með að ná fram þeirri leiðréttingu sem þeir fóru fram á í kjarasamningnum sem var undirritaður við Samtök atvinnulífsins í nótt vegna Icelandair.

Þar með lauk um tveggja sólarhringa verkfalli flugvirkja og var vinnustöðvun frestað um fjórar vikur.

Hann segir samninginn fela í sér hefðbundnar kjarabætur, þar á meðal hækkun grunnlauna, auk breytinga á vinnutilhögunum. Helst þurfti félagið að gefa eftir varðandi samningslengdina. Í júlí var lagt upp með eins árs samning en þess í stað gildir samningurinn til 31. desember 2019 og er til 28 mánaða ef reiknað er frá þeim tíma sem fyrri samningurinn rann út.

„Við vorum ekkert sérstaklega hrifnir af því að fara inn á það tímabil sem þessir stóru aðilar í landinu eru að semja á þessum tíma. Við vitum ekkert hvað er fram undan,“ segir Óskar, spurður hvers vegna flugvirkjar vildu styttri kjarasamning.

Fulltrúar flugvirkja og SA hjá ríkissáttasemjara í gær.
Fulltrúar flugvirkja og SA hjá ríkissáttasemjara í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Eitthvað frá 20 prósentum

Ekki er ljóst hvenær atkvæðagreiðsla fer fram á meðal félagsmanna um nýja samninginn en að öllum líkindum fer hún fram á fundi annað kvöld.

Flugvirkjar fóru fram á í kringum 20% launahækkun á sínum tíma en Óskar segir niðurstöðuna í nótt hafa verið eitthvað frá því.

Eruð þið sáttir við samninginn? „Við erum það sáttir að við getum borið hann undir félagsmenn. Það þýðir ekkert að bera eitthvað á borð sem við teljum að menn vilji ekki.“

Flugvél WOW air á lofti.
Flugvél WOW air á lofti. mbl.is/Sigurður Bogi

Viðræður vegna WOW air hefjast aftur

Flugvirkjar hjá WOW air hafa átt í viðræðum við fyrirtækið um nýjan kjarasamning en samningar losnuðu 31. október. Þeirri deilu hefur þó ekki verið vísað til ríkissáttasemjara. Að sögn Óskars voru þær viðræður settar til hliðar um stundarsakir vegna kjaraviðræðnanna í tengslum við Icelandair. Þær munu núna hefjast á nýjan leik.

Hjá Icelandair starfa 280 til 290 félagsmenn Flugvirkjafélagsins en rétt um 60 hjá WOW air.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert