Álagið að jafnast út á Landspítala

Mikill viðbúnaður var á Landspítala í gær þegar þyrlurnar lentu …
Mikill viðbúnaður var á Landspítala í gær þegar þyrlurnar lentu í Reykjavík með slasaða rútufarþega. mbl.is/Árni Sæberg

Starfsemin á Landspítala er að færast aftur í samt horf eftir mikið álag á sjúkrahúsinu í gær vegna rútuslyssins við Kirkjubæjarklaustur. Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítala, segir enn vera nokkurn þunga á skurðstofum og gjörgæslum en álagið sé að jafnast út.

„Viðbragðsáætlun spítalans virkaði eins og smurð vél,“ segir Anna Sigrún um starfsemina í gær en kalla þurfti út m.a. skurðlækna, svæfingarlækna, sérfræðinga, bráðalækna og sérhæfða hjúkrunarfræðinga. „En hjá okkur eins og öðrum höfðum við æft viðbragðið og það kom til góða,“ segir Anna Sigrún.

Að sögn Önnu Sigrúnar eru margar deildir Landspítala fjölmennari en venjulega vegna þess að sjúklingar voru færðir milli deilda til að losa um pláss á öðrum deildum vegna slyssins. „Næstu dagar munu fara í að jafna út álagið og losa um þungann á skurðstofu og gjörgæslu,“ segir Anna Sigrún.

Einn farþegi rútunnar lést í slysinu og liggja þrír til viðbótar á gjörgæslu. Anna Sigrún vildi ekki upplýsa um líðan þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert