Brotaþolar fái aðstoð frá fyrstu mínútu

Helga Vala Helgadóttir, lögmaður og alþingismaður, hefur starfað sem lögmaður …
Helga Vala Helgadóttir, lögmaður og alþingismaður, hefur starfað sem lögmaður á Neyðarmóttöku Landspítalans í nokkur ár. Ljósmynd/Samfylkingin

Hlutverk réttargæslumanns er fyrst og fremst að gæta hagsmuna brotaþola, en það er vissulega hægt að nýta stöðu réttargæslumannsins til að tengja saman þá fagaðila sem koma að málsmeðferð kynferðisbrotamála.

Þetta er mat Helgu Völu Helgadóttur, lögmanns og alþingismanns. Hún mun fjalla um málsmeðferð kynferðisbrota út frá sjónarhóli réttargæslumanna og stöðu brotaþola í kerfinu á ráðstefnu um nauðgun sem fer fram í Háskólanum í Reykjavík í dag.

Lagadeild og sálfræðisvið Háskólans í Reykjavík standa að ráðstefnunni sem fer fram undir yfirskriftinni „Þögnin, skömmin og kerfið.“ Fjallað verður um nauðgun í víðu samhengi í samstarfi við Rannsóknamiðstöð gegn ofbeldi við HA, lögreglustjórann í Vestmannaeyjum, lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu og Aflið - Samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi.

Aðild brotaþola í sakamálum afar veik

Helga Vala mun í erindi sínu fjalla um reynslu og sýn réttargæslumanns í nauðgunarmálum. Lögbundið er í kynferðisbrotamálum að útvega brotaþola lögmann. „Réttargæslumaður er lögmaður, alltaf, og hlutverk lögmannsins er að gæta hagsmuna brotaþola í gegnum allt ferlið,“ segir Helga Vala.

Að hennar mati er afar mikilvægt að halda vel utan um brotaþola í meðferð kynferðisbrotamála, ekki síst vegna hversu viðkvæm málin er, en einnig vegna veikrar stöðu brotaþola. „Aðild brotaþola í sakamálum er svo veik af því að brotaþolar eru vitni í eigin málum.“

Helga Vala segir brotaþolann vera á kantinum á meðan ákæruvaldið, það er hið opinbera, lögregla eða saksóknari, og ákærði, eða sakborningur, eru miðja málsmeðferðar nauðgunarmála. „Brotaþolinn kemur inn í mál sem vitni sem er mjög sérstakt, hann upplifir sig stundum svolítið hliðsettan þó að málið varði árás á viðkomandi. Það er svolítið skrýtin staða.“

Réttargæslumaðurinn sá eini sem fylgir brotaþola í gegnum allt ferlið

Hún segir hlutverk réttargæslumannsins hafi verið að þróast á undanförnum árum. „Það er bara í rauninni handgert, við höfum verið að djöflast í því, ákveðið teymi, að reyna að auka vægi brotaþola.“

Þróunin felst meðal annars í því að réttargæslumenn hafa verið að berjast í auknum mæli fyrir því að brotaþolar fái öfluga réttargæslu eða aðstoð alveg frá fyrstu mínútu. „Af því að þetta er í raun eini aðilinn sem fylgir brotaþola í gegnum allt ferlið, alveg frá því að viðkomandi kemur á neyðarmóttöku eða löggustöð og alveg þar til yfir lýkur, hvort sem það er með dómi eða ekki. Við erum í kjöraðstöðu til að leiðbeina og leiða viðkomandi áfram. Við fylgjumst með öllu ferlinu,“ segir Helga Vala.

Réttargæslumaður fylgir brotaþola í gegnum allt ferlið, hvort sem það …
Réttargæslumaður fylgir brotaþola í gegnum allt ferlið, hvort sem það hefjist á neyðarmóttöku eða hjá lögreglu. mbl.is/Ómar

Fagleg málsmeðferð leiðir til fleiri upplýstra mála

Á ráðstefnunni mun fjöldi fagaðila flytja erindi, meðal annars dómsmálaráðherra, fulltrúar lögreglunnar, brotaþola, og heilbrigðisstéttarinnar.

„Þarna er fjöldi fagaðila að fara að tala saman og lýsa sinni sýn á þessu. Ég held að allir fagaðilar græði á því að eiga samtal hver við annann,“ segir Helga Vala. Sjálf hefur hún verið lögmaður á Neyðarmóttöku Landspítalans í nokkur ár.  „Við erum í þeirri stöðu að geta verið í góðum tengslum við alla aðila, hjúkrunarfræðinga, lækna, löggur, af því að við fylgjum brotaþola öll skrefin.“

Helga Vala segir að tilgangurinn með ráðstefnu eins og þeirri í dag, sé einmitt að efla þjónustu við brotaþola. „Tilgangurinn er alltaf að efla þjónustuna, að gera málsmeðferðina faglegri sem á að leiða til þess að fleiri mál sem upplýsist, af því að það er líka forvörn í því.“ 

Ráðstefn­an fer fram í dag, föstu­dag­inn 5. janú­ar, klukkan 13-17 í stofu V101 í Há­skól­an­um í Reykja­vík. Hér er hægt að nálg­ast frek­ari upp­lýs­ing­ar um viðburðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert