Lögbannið snýst ekki um Bjarna Ben

Lögbannið snýst ekki um að vernda Bjarna Benediktsson fyrir umfjöllun …
Lögbannið snýst ekki um að vernda Bjarna Benediktsson fyrir umfjöllun fjölmiðla, segir lögmaður Glitnis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögmaður Glitnis HoldCo. ehf., Ólafur Eiríksson, sagði í málflutningi sínum fyrir Héraðdómi Reykjavíkur í dag að ljóst væri að blaðamenn Stundarinnar og Reykjavík Media byggju yfir upplýsingum um þúsundir fyrrum viðskiptavina Glitnis og að áframhaldandi birting frétta upp úr þessum gögnum gæti leitt til skaðabótaskyldu fyrir Glitni.

Hann sagði engin fordæmi hérlendis fyrir jafn umfangsmiklum stuldi gagna sem eigi rætur sínar að rekja til fjármálafyrirtækis, eins og í þessu máli. Málið væri í raun einfalt, þessi gögn væru eign Glitnis, um þau ríkti bankaleynd og þeim mætti ekki dreifa, þar sem þarna væri um að ræða einkamálefni einstaklinga og lögaðila.

„Þetta mál snýst ekki um neinn nafntogaðan aðila eða fréttaflutning um hann,“ sagði Ólafur og vísaði þar til Bjarna Benediktssonar, þáverandi forsætisráðherra, sem var andlag meirihluta þeirra frétta sem Stundin og Reykjavík Media unnu upp úr gögnunum.

Brotið gegn lögvörðum réttindum almennra borgara

„Kjarni máls þessa snýr að tveimur grundvallarspurningum,“ en þær sagði Ólafur vera hvort fjölmiðlarnir mættu annarsvegar halda á gögnum sem væru eign bankans með þeim hætti að blaðamenn gætu flett upp í þeim að vild og í öðru lagi birta upplýsingar úr þeim opinberlega í fjölmiðlum.

Hann sagði liggja fyrir að full nöfn, kennitölur og reikningsupplýsingar aðila sem ekki væru opinberar persónur hefðu birst í framsetningu Stundarinnar á efni gagnanna. Ekki hafi verið haft samband við þá einstaklinga, sem margir eru tengdir Bjarna Benedikssyni fjölskylduböndum, hvorki fyrir né eftir birtingu frétta. Umfjöllunin hafi brotið gegn lögvörðum réttindum þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert