„Ég bað hann að hætta en hann gerði það ekki“

Þuríður sagði sögu sína í fyrsta skipti opinberlega.
Þuríður sagði sögu sína í fyrsta skipti opinberlega. mbl.is/Hari

„Þarna var stórt skarð höggvið i mitt hjarta,“ segir Þuríður Ragna Jóhannesdóttir um tilfinninguna sem hún upplifði í kjölfar þess að hafa verið nauðgað þegar hún var 16 ára gömul. Hún átti allt lífið framundan en eftir ofbeldið breyttist allt. Hún segist í dag geta talað um sjálfa sig fyrir og eftir nauðgun.

Þuríður sagði sögu sína í fyrsta skipti opinberlega á ráðstefnunni: Þögnin, skömmin og kerfið sem stendur nú yfir í Háskólanum í Reykjavík, en þar er fjallað um nauðgun í víðu samhengi. Þegar Þuríður steig í pontu eftir að hafa hlýtt á erindi fræðimanna og fagaðila sagðist hún hafa tengt við margt og grátið.

Hún lýsti sjálfri sér, manneskjunni sem hún var fyrir nauðgun, sem lífsglaðri og ævintýragjarnri. Hún var öflug í íþróttum og las mikið. Svo dundi áfallið yfir.

Varð stjörf og beið eftir því að þetta kláraðist

Þuríður var 16 ára, nýbúin með fyrsta árið í framhaldsskóla - heimavistarskóla í nágrenni bæjarfélagsins sem hún bjó í. Foreldar hennar voru í sumarbústað en vinahópurinn úr skólanum tók ákvörðun um að fá sér í glas og fara á ball. Þar hitti hún tvo stráka sem hún kannaðist við, en annar hafði verið verið gangavörður í skólanum hennar. Þeir voru báðir þremur eða fjórum árum eldri en hún.

Eftir ballið fékk hún að fara heim með öðrum þeirra til að hringja í einhvern til að sækja sig. Það gekk illa, en aðeins einn leigubíll var til staðar í bæjarfélaginu. „Ég sofnaði á sófa og vaknaði við það að var verið að nauðga mér. Ég bað hann að hætta en hann gerði það ekki.“ Þuríður sagði vinkonuhópinn hafa rætt hvað þær myndu gera ef þær lentu í slíkum aðstæðum. Þær gætu til dæmis stungið tveimur puttum í augun á gerandanum. Þetta hafi hins vegar ekki verið svo einfalt. „Ég varð stjörf og beið eftir því að þetta kláraðist.“

Þegar strákurinn hafði komið vilja sínum fram kom vinur hans fram úr herbergi og tók við. Hún reyndi að berjast á móti en hann reif af henni fötin og brjóstahaldarinn fór í tvennt. Þuríður segist hafa verið meðvituð um það í bæði skiptin að verið væri að brjóta á henni. Það var enginn efi í hennar huga.

Fór að stunda sjálfskaðandi hegðun

Daginn eftir fór hún með öðrum gerandanum í bæjarfélagið sem hún bjó í, henni leið mjög illa og var við það að kasta upp. Um hádegi gekk hún svo inn á lögreglustöðina og lagði fram kæru. Hún segir fát hafa komið á lögregluna sem hringdi svo í aðstandanda hennar. Læknisskoðun sýndi fram á að eitthvað hafði gerst. Málið var hins vegar fellt niður. Það var orð á móti orði.

Þuríður segist í kjölfarið hafa mætt dómsvaldi götunnar. Hún var kölluð lygari. „Þarna var búið að nauðga mér og stór hluti bæjarins kallaði mig lygara,“ segir Þuríður sem upplifði að henni hefði verið úthýst úr sínu eigin bæjarfélagi. Þá varð hún einnig fyrir líkamlegu ofbeldi.

Eftir að hafa verið nauðgað fór Þuríður að stunda sjálfskaðandi hegðun, sótti í óheilbrigð sambönd og reiddist auðveldlega.

Undir lok erindis síns átti Þuríður erfitt með að halda aftur af tárunum. Hún þakkaði systur sinni sérstaklega fyrir að hafa alltaf staðið með sér og hjálpað henni að lifa lífinu. Hún hafi einnig staðið uppi í hárinu á því fólki í bæjarfélaginu sem kallaði hana lygara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert