Lögregla pressar mikið á þolendur að kæra

Jón segir lögreglu þrýsta á þolendur kynferðisbrota að kæra enda …
Jón segir lögreglu þrýsta á þolendur kynferðisbrota að kæra enda séu þá meiri líkur á að málið upplýsist. mbl.is/Hanna

„Pressar lögreglan um of á þolendur að kæra?“ Þessari spurningu varpaði Jón H.B. Snorrason, saksóknari við embætti ríkissaksóknara, fram í erindi sínu á ráðstefnunni Þögnin, skömmin og kerfið, sem fór fram í Háskólanum í Reykjavík í gær. Þar var fjallað um nauðgun í víðu samhengi. Spurningunni svaraði Jón strax í upphafi erindis síns. „Já, lögreglan pressar mjög mikið á þolendur að kæra.“

Sagði hann það skipta svo miklu máli fyrir rannsókn máls að kæra væri lögð fram og því væri þrýst á þolendur að kæra sem fyrst.

Erindi sem Berglind Guðmundsdóttir sálfræðingur hélt á síðasta ári vakti hann hins vegar til umhugsunar um málið. Þar kom fram að taka þyrfti tillit til þolenda á fyrstu klukkutímunum eftir verknaðinn. Pressan á að kæra væri í raun eins og annað áfall. Þolandanum fyndist vera vaðið yfir sig og ákveðin mörk ekki virt. Þetta eigi líka við um starfsfólk neyðarmóttöku og réttagæslumenn.

Jón sagði lögreglu vel geta hafið rannsókn án þess að brotaþoli kærði eða gæfi skýrslu og lögreglu bæri í raun að gera það hefði hún vísbendingar um að brot hefði verið framið. Það ætti ekki eingöngu að vera bundið við frumkvæði brotaþola

Hann tók hins vegar fram að það væri ekki hægt að skipuleggja markvissa rannsókn og fara í aðgerðir sem fælu í sér þvingunaraðgerðir og öflun sönnunargagna án hjálpar brotaþola. Hann sagði það því geta hamlað rannsókninni og takmarkað hana að hafa ekki allar upplýsingar á borðinu. Það þyrfti að byggja á sterkum grunni ef fara ætti í handtöku og húsleitir og ólíklegt væri að komast þangað án aðstoðar þolandans. Þá sagði hann það sýna sig að meiri líkur væru á því að mál upplýstist ef rannsókn hæfist strax. Jón sagði að lokum að hann teldi kæruferlið vera orðið mildara en það var, en að vel mætti bæta það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert