Hver er starfsemi Hellisheiðarvirkjunar?

Frá slökkvistarfi við virkjunina.
Frá slökkvistarfi við virkjunina. mbl.is/Hanna

Hellisheiðavirkjun er í eigu og rekstri Orku náttúrunnar, dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur. Jarðhitasvæði virkjunarinnar er sunnan við Hengilinn, en virkjunin sjálf var gangsett árið 2006. Hefur stöðin verið stækkuð frá því að hún var gangsett og er uppsett afl hennar í dag 303 MW í rafmagni og 133 MW í varmaafli. Sé miðað við full afköst gæti varmastöðin stækkað í 400 MW í framtíðinni.

Stöðin er tengd við jarðhitasvæðið í Hverahlíð á Hellisheiði með gufulögn sem var tekin í notkun árið 2016.

Í stöðinni eru sjö vélar til rafmagnsframleiðslu og varmastöð fyrir heitt vatn. Úr borholum svæðisins streymir jarðhitavökvi sem er safnað saman í skiljustöð. Þaðan fara svo gufa og vatn í tveimur aðskildum aðveituæðum í stöðvarhús virkjunarinnar þar sem fyrrnefndar rafvélar og varmavél eru til staðar.

Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orku náttúrunnar, staðfesti við mbl.is að einn tíundi af heitu vatni sem notað er á höfuðborgarsvæðinu komi frá virkjuninni. 

Í Hellisheiðarvirkjun er einnig til húsa jarðhitasýning þar sem almenningi er veitt innsýn í virkjun og nýtingu jarðvarma á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert