Lítið tjón í stöðvarhúsinu

Slökkviliðið á vettvangi eldsvoðans í Hellisheiðarvirkjun.
Slökkviliðið á vettvangi eldsvoðans í Hellisheiðarvirkjun. mbl.is/Hanna

Tjón vegna elds sem upp kom í Hellisheiðarvirkjun á föstudag er að mestu bundið við inntaksrými loftræstibúnaðar. Öflug brunahólfun kom í veg fyrir að eldur bærist í loftræsibúnaðinn sjálfan í aðliggjandi rými, að því er segir í frétt frá Orku náttúrunnar vegna málsins. Inntaksrýmið er gróft og fátt búnaðar þar inni. Þannig er gólf rýmisins hellulagt. Beðið verður eftir betri tíð með viðgerð á þaki rýmisins, hugsanlega fram á vor. Þá þarf að kanna hvort eldurinn hefur haft áhrif á burð þakbita.

Lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn á upptökum eldsins. Mikinn svartan reyk sem lagði frá eldinum virðist mega rekja til þakpappa sem brann og einangrunar á nokkrum rafmagns- og stýristrengjum sem liggja um inntaksrýmið.

Ekki liggur fyrir nákvæmt fjárhagsleg mat á tjóninu. Virkjunin skilaði fullum afköstum innan sólarhrings frá því eldurinn kom upp.

Jarðhitasýning Orku náttúrunnar, sem rekin er í Hellisheiðarvirkjun, er lokuð vegna viðgerða á gólfi sem skemmdist af slökkvivatni. Stefnt er að því að opna hana að nýju mánudaginn 22. janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert