Tvö snjóflóð féllu á Flateyrarveg

Margir vegir á Vestfjörðum eru lokaðir vegna snjóflóðahættu eða ófærir.
Margir vegir á Vestfjörðum eru lokaðir vegna snjóflóðahættu eða ófærir. Ljósmynd/Vegagerðin

Flateyrarvegur er lokaður eftir að tvö snjóflóð féllu á veginn laust eftir klukkan tvö í dag, beint fyrir utan Breiðadal, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Vestfjörðum. Ekki er vitað hversu stór snjóflóðin voru.

Það verður kannað þegar birtir betur til, en afar blint hefur verið vegna mikillar snjókomu á Vestfjörðum í dag. Að sögn Hlyns Hafbergs Snorrasonar, lögreglumanns á Ísafirði, er ekkert ferðaveður, en auk Flateyrarvegar er vegurinn um Súðavíkurhlíð og Kirkjubólshlíð lokaður vegna snjóflóðahættu.

Sunnanlands er Mosfellsheiði lokuð, en þar töluvert umferðaröngþveiti og margir í vandræðum. Björgunarsveitir eru á leiðinni á staðinn.

„Það er búið að manna lokun við Gljúfrastein og Laugarvatn og búið að boða út stærri bíla til að flytja fólk af heiðinni ef til þess kemur,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar.

Búið er að boða björgunarsveitir frá Reykjavík, Selfossi, Eyrarbakka og Laugarvatni á staðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert