Lyfjamisnotkunarvandi á Íslandi

Ólafur B. Einarsson hjá embætti landlæknis segir að vandinn vegna …
Ólafur B. Einarsson hjá embætti landlæknis segir að vandinn vegna lyfjaávísana sé alls ekki bundinn við sprautufíkla hér á landi. mbl.is/Hari

Meginvandi vegna ávanabindandi lyfja á Íslandi verður ekki leystur nema settar verði meiri skorður á aðgengi einstaklinga að ávísunum og önnur úrræði efld, segir Ólafur B. Einarsson, verkefnastjóri hjá embætti landlæknis. Hér á landi eru það löglegu lyfin sem draga fólk til dauða oftar en ólöglegu.

Ólafur segir misnotkun lyfja þekkjast meðal allra vestrænna þjóða en rannsóknir benda til að hún haldist í hendur við heildarmagn ávísaðra lyfja. Því meira heildarmagn sem er ávísað því meiri líkur eru á að fólk ánetjist lyfjunum.

Ávanabindinandi lyf eru hluti tauga- og geðlyfja en Íslendingar nota tæpleg 30% meira af þeim en sú Norðurlandaþjóð sem kemur næst á eftir Íslandi.

Það er lítið mál að útvega lyf á samfélagsmiðlum.
Það er lítið mál að útvega lyf á samfélagsmiðlum. AFP

„Það þarf því ekki að koma á óvart að stór hópur fólks á Íslandi eigi við misnotkunarvanda að stríða vegna ávanabindandi lyfja. Margir þeirra sem leggjast inn á bráðadeildir eða deyja vegna eitrana hafa ekki fengið ávísað lyfjum sjálfir en flestir hafa verið að fá ávísað margföldum skömmtum af einstaka lyfjum.

Lítið mál virðist vera að selja lyfin í gegnum samskiptamiðla en litlar upplýsingar eru til um umfang ólöglegs innflutnings lyfja í gegnum póstsendingar eða það sem einstaklingar hafa með sér þegar  þeir koma inn í landið. Eitthvað er um fréttir af að hald hafi verið lagt á lyf í tolli en svo virðist sem meginuppsprettan sé ávísuð lyf frá sjúklingum sem hafa fengið þau niðurgreidd af Sjúkratryggingum Íslands,“ segir Ólafur.

Árið 1977 birtist grein í Læknablaðinu sem Ólafur Ólafsson og Almar Grímsson voru höfundar að en titill greinarinnar var „Neyzla ávana- og fíkniefna og geðlyfja á Íslandi“. 

Í greininni kom fram að notkun amfetamíns og methylpehnidate (Rítalín) var margföld á Íslandi árið 1972 borið saman við hin löndin á Norðurlöndum. Jafnframt kom fram að notkun svefn- og róandi  lyfja var umtalsvert meiri í Reykjavík borið saman við Akureyri og Noreg.

Á síðustu 40 árum hefur notkun tauga- og geðlyfja margfaldast á Íslandi og fólk á Norðurlandi notar að jafnaði mest allra Íslendinga af lyfjunum í dag. Tölur frá OECD sýna að Ísland sé með mestu notkun þunglyndislyfja og örvandi lyfja sem þekkist og sjálfsagt fyrir fleiri lyfjaflokka ef OECD hefði birt tölur yfir þá, segir Ólafur.

Heróín er ekki á markaði hér en sterk verkjalyf eru …
Heróín er ekki á markaði hér en sterk verkjalyf eru mikið notuð. AFP

Komum næst á eftir Bandaríkjunum

„Til að átta sig á ástandinu hefur skort tölur um afleiðingar eins og innlagnir á bráðadeildir vegna eitrana og lyfjatengd dauðsföll.

Í grein sem birtist í New York Times (NYT) nýlega kom fram að Ísland kemur næst á eftir Bandaríkjunum í fjölda dauðsfalla vegna sterkra verkjalyfja.

Fréttin kom aftan að mörgum sem fylgst hafa með samanburði Íslands við hin löndin á Norðurlöndum þar sem ekkert benti til að tíðni lyfjatengdra dauðsfalla væri hærri hér á landi.

Þegar betur var að gáð kom í ljós að í norrænum samanburði er ákveðnum lyfjum sleppt sem hafa tengst dauðsföllum hér á landi en einnig að heróíntengdum dauðsföllum er blandað saman við lyfjatengd dauðsföll í norrænum samanburði.

Heróín hefur ekki verið vandamál á Íslandi eins og víða annars staðar og því hefur samanburður Íslands við þessar þjóðir á lyfjatengdum dauðsföllum ekki litið út fyrir að vera vandamál hér á landi.

Sænsk yfirvöld birtu nýlega tölur sem sýndu að talsverð aukning hefur átt sér stað í Svíþjóð á haldlagningu smyglaðra verkjalyfja (Tramadól) en smygl lyfja hefur ekki verið talið mikið vandamál á Íslandi.

Í tölum frá Bandaríkjunum eru dauðsföll vegna heróíns og verkjalyfja aðskilin og dauðsföll vegna Fentanyl, búprenorfín og Tramadóls meðtalin. Grein NYT sýndi að Ísland kemur næst á eftir Bandaríkjunum þegar dauðsföll vegna eitrana af völdum sterkra verkjalyfja eru skoðuð með sömu skilmerkjum,“ segir Ólafur.  

Notkun þunglyndislyfja hefur margfaldast á Íslandi.
Notkun þunglyndislyfja hefur margfaldast á Íslandi. AFP

Ekki einsleitur hópur sem deyr

Reglulega hafa verið að birtast fréttir af ungu fólki sem deyr vegna ofskömmtunar en þessar nýju tölur benda til að ástandið á Íslandi sé verra en fólk hafði gert sér grein fyrir, segir Ólafur.

„Rétt er samt að benda á að þeir sem deyja á Íslandi þar sem grunur er á að andlát megi rekja til lyfjaeitrunar er fjarri því að vera einsleitur hópur hvað varðar t.d. aldur eða orsök dauðsfalla. Í sumum tilfellum er um sjálfsvíg ræða og/eða erfið veikindasaga þess látna og allur samanburður milli landa er erfiður vegna skilmerkja,“ segir Ólafur.

Ísland sker sig úr í norrænum samanburði fyrir tauga- og geðlyf en fyrir flest önnur lyf er notkun sambærileg. En hvers vegna hafa eftirlitsaðilar ekki náð að stoppa þessa þróun lyfjaávísana eða grípa í taumana, spyr Ólafur.

Þriðjungur þjóðarinnar fær ávísað ávanabindandi lyfjum

„Til að svara þessari spurningu er rétt að átta sig á umfangi ávísana ávanabindandi lyfja og hvernig það hefur birst þeim sem vinna við málaflokkinn.

Tæplega þriðjungur þjóðarinnar fær ávísað ávanabindandi lyfjum á hverju ári frá rúmlega tvö þúsund læknum. Flestir einstaklingar fá aðeins lítilræði af lyfjum en sá hópur sem fær óhóflega skiptir hundruðum.

Til að bæta eftirlit með lyfjaávísunum var settur á laggirnar lyfjagagnagrunnur árið 2006 en þrátt fyrir tilkomu hans héldu ávísanir áfram að aukast. Með tilkomu grunnsins var betur hægt að bera lyfjaávísanir á Íslandi saman við aðrar þjóðir en einnig að upplýsa lækna eða gera athugasemdir vegna ávísana þeirra.

Fyrir þá einstaklinga sem fara á milli lækna var lítið hald í lyfjagagnagrunni en vandinn fólst í því að koma upplýsingunum til lækna sem var seinvirkt í gegnum síma eða með bréfaskiptum.

Í dag hafa læknar beinan aðgang að upplýsingum um lyfjaávísanir í rauntíma ásamt því að sjá það sem sjúklingur á af lyfjum í lyfseðlagátt.

Þrátt fyrir tilkomu lyfjagagnagrunns heldur heildarmagn ávísaðra tauga- og geðlyfja áfram að aukast á Íslandi og munurinn verður meiri miðað við aðrar þjóðir. Ljóst er að eftirlit eitt og sér kemur ekki til með að snúa þessari þróun, hér þarf að breyta þjónustu við sjúklinga og samfara því þarf lyfjamenning landans að breytast,“ segir Ólafur.

Getur leitað til næsta læknis ef sá fyrri neitar

Hann bendir á að rúmlega helmingur lækna sem ávísar lyfjum eru skráðir notendur lyfjagagnagrunns en sjúklingar sem sækja í ávanabindandi lyf geta enn farið á milli lækna og fengið ávísað frá sitthvorum lækninum á sama tíma vegna þeirra lækna sem ekki nota grunninn og þeirra sem eru ekki virkir notendur.

Einstaklingum á Íslandi er frjálst að fara á milli lækna en meiri hömlur eru á sjúklinga á hinum löndunum á Norðurlöndum þar sem ekki er eins auðvelt að fara á milli lækna. Þá eru vísbendingar um að eftirlit með læknum sé strangara bæði með greiningum og ávísunum.  Þegar læknir á Íslandi ætlar að takmarka ávísanir sjúklings getur sjúklingurinn farið til annars læknis og því erfitt að taka á vandanum af festu.

Sá hópur sem notar mest af lyfjum er gamla fólkið …
Sá hópur sem notar mest af lyfjum er gamla fólkið en fjöllyfjanotkun og langvarandi meðferð er allt of algeng meðal aldraðra. mbl.is/Golli

„Komnar eru leiðbeiningar á heimasíðu embættis landlæknis um ávísanir ávanabindandi lyfja og flestir læknar eru sammála um það hvernig á að sinna sjúklingum. Flestir læknar vita að það er ekki góð læknisfræði að hafa sjúkling á svefn- og róandi lyfjum til langs tíma en þrátt fyrir það eru margir sjúklingar á langvarandi notkun þessara lyfja.

Sama á við um fjöllyfjanotkun en „margir einstaklingar hafa verið á mörgum mismunandi tauga- og geðlyfjum í langan tíma.

Tilkoma lyfjagagnagrunns átti að draga úr slíku ávísanamynstri og jafnframt að auðvelda læknum að sjá vandann og bregðast við þegar í ljós kom að ávísanir voru ekki í lagi. 

Sá hópur sem notar mest af lyfjum er gamla fólkið en fjöllyfjanotkun og langvarandi meðferð er allt of algeng meðal aldraðra en þeir elstu rápa ekki á milli lækna. Það gildir sérstaklega um þá sem eru aldraðir eins og aðra að þeir sem eru að fá ávísað lyfjum eins og Imovane, Stilnoct, Stesolid, Tafíl, Sobril, Risolid, Lexotan, Gabapentín eða verkjalyfjum upp á hvern dag að hættan er sú að verða háð þeim og þróa með sér heilsufarsvanda tengdan ofnotkun lyfja,“ segir Ólafur.

Margir hafa verið þeirrar skoðunar að vélskömmtun lyfja gæti leyst vanda hjá þeim sem sækja stíft í lyf til að fá reglu í lyfjaávísanir en bæði vélskömmtun og fjölnota seðlar hafa í mörgum tilfellum aukið vandann.

„Skömmtun og lyfjaendurnýjanir eru  orðnar of sjálfvirkar og oft án nauðsynlegra samskipta á milli læknis og sjúklings. Stærstur hluti ávísana ávanabindandi lyfja fer í gegnum heilsugæsluna og eru oft endurnýjaðar í gegnum síma.

Heilsugæslulæknar hafa lítinn tíma til að taka í taumana og erfitt getur verið að koma sjúklingum í önnur úrræði. Það virðist sem mikið af tíma heilsugæslunnar fari í að sinna geðrænum vandamálum. Þessi vandi er ekki síst til staðar á landsbyggðinni þar sem afleysingalæknar hafa takmarkaðan tíma til að setja sig inn í mál sjúklinga til að stýra lyfjagjöf í rétta átt. Margir læknar hafa jafnframt sagt frá því að erfiðara er að finna meðferðarúrræði fyrir sjúklinga á landsbyggðinni,“ segir Ólafur.

Hann segir sérstöðu Íslands varðandi misnotkun vera hvað ávísuð lyf eru ráðandi hjá þeim sem glíma við alvarlegasta vandann, erlendis eru ólögleg efni meira ráðandi.

Að lyf sjúklinga rati í ólöglega sölu getur ekki talist …
Að lyf sjúklinga rati í ólöglega sölu getur ekki talist eðlilegt segir Ólafur B. Einarsson. AFP

Fer fjarri að vandinn sé bundinn við sprautufíkla

„Í þeim andlátum sem eru til skoðunar hjá Embætti landlæknis þar sem grunur er á að andlát megi rekja til eitrunar er það undantekning ef ráðandi orsök dauðsfalla er ólögleg efni. Í flestum tilfellum eru það lyf ásamt áfengi sem eru ráðandi orsök.  

Þetta er umhugsunarvert varðandi hugmyndir um neyslurými að erlendri fyrirmynd, hvort fíklar eigi að sprauta sig með ólöglega fengnum læknalyfjum þar. Það er fjarri því að vandinn vegna lyfjaávísana sé eingöngu bundinn við sprautufíkla hér á landi en vegna þess hversu meðalaldur þeirra er lágur og lífslíkur eru skertar gerir það vanda þeirra alvarlegri.

Stærsti ávinningurinn er sá að takmarka þann fjölda einstaklinga sem leiðast út í þannig misnotkun. Að lyf sjúklinga rati í ólöglega sölu getur ekki talist eðlilegt og verður að teljast undarlegt ef lyf finnast í fórum fólks í lögreglurannsóknum að ekki sé kannað hvaða læknar ávísa og til hverra er ávísað af þeim lyfjum sem finnast á vetvangi.

Meginvandi vegna ávanabindandi lyfja á Íslandi verður ekki leystur nema settar verði meiri skorður á aðgengi einstaklinga að ávísunum og önnur úrræði efld. Von er til þess að með nýrri reglugerð um gerð lyfseðla sem tekur gildi í apríl ásamt meira eftirliti og  notkun lækna á lyfjagagnagrunni muni ástandið batna. Sá hópur lækna sem ávísar óhóflega er ekki stór og flestir hafa sett sér vinnureglur sem þeir fara eftir, leiðbeiningar embættis landlæknis eru ágætar til þess,“ segir Ólafur B. Einarsson, verkefnastjóri í lyfjateymi embættis landlæknis. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert