Áður kærður og tilkynntur til barnaverndar

Starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur, karlmaður á fimmtudagsaldri, sem nú situr í gæsluvarðhaldi grunaður um gróf kynferðisbrot gagnvart ungum dreng á árunum 2004 til 2010, hefur áður verið kærður fyrir kynferðisbrot gagnvart barni.

Þá hefur mbl.is það eftir heimildum að maðurinn hafi árið 2008 verið tilkynntur til Barnaverndar Reykjavíkur og Félagsþjónustunnar vegna gruns um að hann hefði brotið gagnvart börnum. Um aðskilin mál er að ræða.

Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar, staðfestir í samtali við mbl.is að kæra hafi borist á hendur manninum árið 2013 fyrir kynferðislega áreitni gagnvart barni. Kærð brot áttu sér stað upp úr aldamótum, á árunum 2000 til 2006, var málið því talið fyrnt þegar kæran barst og fellt niður.

Kæran sem nú er til meðferðar hjá lögreglu barst í ágúst síðastliðnum, en var ekki tekin til skoðunar fyrr en fimm mánuðum síðar, eftir að réttargæslumaður drengsins hafði margítrekað hana. Maðurinn var stuðningsfulltrúi drengsins og dvaldi drengurinn oft á heimili hans. Hann var á aldrinum 8 til 14 ára þegar meint brot voru framin.

Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, segir í samtali við mbl.is að enginn þar kannist við að tilkynning hafi borist vegna mannsins. mbl.is hefur það hins vegar eftir heimildum að hringt hafi verið og látið vita sterkur grunur væri um að maðurinn hefði brotið gagnvart börnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert